Þuríður í Delhí - Besti dagurinn enn sem komið er

Verð bara að deila því með ykkur að dagurinn í dag var sá besti hingað til. Allar hreyfingar voru mun sterkari en í gær og Shivanni og mamma sögðu mér báðar að greinilega hefði tá á vinstri fæti hreyfst og sama tá á hægri fæti hefði flikrað örlítið.

Vona svo sannarlega að þetta hafi ekki verið eitthvað tilfallandi – en allavega örlítil ökklahreyfing er komin og henni get ég ekki neitað. Mér gekk þokkalega vel á boltanum og held að ég ráði orðið betur við að hreyfa mig í litla hringi á honum heldur en áður, var samt í smá basli með að lyfta höndunum en ég gerði það samt þó kannski jafnvægið hafi aðeins liðið fyrir þær hreyfingar. Dýnuæfingin gekk líka vel, og mamma sem í fyrsta skipti var aðstoðarmaður þ.e. átti að hjálpa til með hreyfa hægri fótinn var svo aldeilis undrandi þegar hún komst að því að hún gerði í raun ekki neitt annað en að halda undir fótinn sem ég svo hreyfði áfram eða aftur á bak, sem sagt var að skríða á fjórum  fótum. Eftir hádegið var svo gangan mikla, og þar var sömu sögu að segja mér gengur mun betur að færa fæturna hvorn fram fyrir annan og sá hægri er farin að hlýða mér mikið betur, ég er hætt að svindla með því að styðja vinstri mjöðminni við grindina ;0). Svo fór ég á tvískiptu spelkurnar, þær sem ég er svo fáránlega í, ég keyrð inn í göngubrautina og hoppaði á gúmíleggina mína. Þetta var allsekki jafn erfitt og í gær og sporin komu miklu betur hjá mér bæði áfram og aftur á bak, ég verð að viðurkenna að ég var svoldið montin. Það lá við að ég vonaði að ég fengi frí frá meiri sprautum svo ég gæti æft mig meira, en sem betur fer verður mér ekki að þeirri ósk því ég fékk boð um að á morgun fari ég í síðustu sprautuna og hún verði framkvæmd hér eins og síðast. Ég þarf að vísu að liggja í fjóra tíma eftir hana þannig að það verða bara rólegheit hjá mér eftir hádegið á morgun. Ég verð að segja ykkur aðeins af samferðafólki mínu. Hr. Molli safnaði alskeggi í vetur, miss Mollý til mikillar armæðu og engin dagur hefur liðið í þessari ferð án þess að hún kommentaði á skeggið, benti á klippistofur og hótaði öllu illu ef skeggið yrði ekki rakað, hr. Molli hefur verið alveg þversum og fundist bara ljótt af miss Mollý að setja út á skeggið, það sé jú hluti af honum. Í dag brá svo við að hr. Molli týndist í 3 klukkutíma, miss Mollý var farin að ókyrrast og orðin hrædd um að hann hefði villst þar sem hann er afskaplega áttavilltur hér í borg. Við Mollý vorum á leið niður í æfingar og biðum eftir lyftunni, lyftan opnaðist og hr. Molli blasti við okkur, ég rak upp stór augu þar sem maðurinn var gjörbreyttur, búin að láta klippa sig og raka allt skegg, hafði bara yngst um 20 ár. Hann heilsaði okkur og rétti miss Mollý bréfpoka, sem ég hélt að innihéldi skeggið en það var þá kaffi. Hún tók við pokanum og sagðist koma á eftir okkur niður, ég gapti, hún hafði ekki sagt neitt! Hr. Molli brosti og sagði uss, hún tók ekki eftir þessu, nauhhh sagði ég, það getur ekki verið, júbb hún sá þetta ekki sagði Molli. Við fórum niður og svo kom miss Mollý hún spjallaði við hr. Molla eins og ekkert hefði gerst, á endanum gaf hann henni hint og allt í einu tók hún eftir að skeggið var farið, augun glenntust upp og svo kom svona innsogshljóð, henni brá. En vitið þið bara hvað hún tók ekkert eftir að hann hafði farið í klippingu, vissi það ekki fyrr en ég sagði henni það í kvöld, ótrúlegt  )

Fleiri fréttir