Tónlistarhátíðin Hátíðni á Borðeyri

Borðeyri. Mynd:FE
Borðeyri. Mynd:FE

Tónlistarhátíðin Hátíðni verður haldin á Borðeyri um næstu helgi. Það er listasamlagið og útgáfufélagið Post-dreifing sem stendur að viðburðinum en á hátíðinni koma fram tónlistarmenn og hljómsveitir sem hafa verið að hasla sér völl á íslensku tónlistarsenunni að undanförnu.

Tónleikarnir verða haldnir í gamla grunnskólanum á Borðeyri sem þjónar hlutverki félagsheimilis hreppsins eftir að skólahald lagðist af. Hátíðin var fyrst haldin í fyrra, þá í félagsheimilinu Brún í Borgarfirði. Margar hljómsveitir koma fram, meðal þeirra má nefna The Beeves, Bagdad Brothers, Skoffín, Gyðjan Uxi, Captain Syrup, Nornagal og Spaðabana.

Rætt var við Bjarna Daníel Þorvaldsson í þættinum Lestin á Rás 1 fyrr í sumar en hann er einn af forsprökkum Post-dreifingar og meðlimur í hljómsveitinni Bagdad Brothers. ,,Mestmegnis er þetta fólk sem er í okkar hringjum og er að gera spennandi hluti, við erum búin að vera að reyna að leggja áherslu á að fá inn nýtt fólk sem hefur ekki verið að spila mikið áður," sagði Bjarni. Hljómsveitirnar sem fram koma eru af margvíslegum toga að sögn Bjarna og mun fjölbreytt tónlist hljóma á Borðeyri, hipp hopp, indie-rokk, og pönk, svo nokkuð sé nefnt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir