Umhleypingasamt og ofankoma og ekkert þar á milli

Þriðjudaginn 7. janúar komu saman til fundar 14 félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ. Farið var yfir spágildi síðasta mánaðar og voru allir sammála um það að „skotið“ sem spámenn áttu von á var öflugra og hraustara en við var búist. „Engu líkara en það væri „heimahlaðið skot,““ eins og einum félaga varð að orði en því miður gekk síðasta spá ekki eftir.

„Tunglið sem er ríkjandi fyrir janúar kviknaði 26. desember í austri klukkan 05:13. Það verður ríkjandi fram yfir miðjan janúar þar til næsta tungl kemur, það er Þorratungl sem kviknar á bóndadaginn í vestri kl 21:42. Eins og veðrið hefur verið að undanförnu, umhleypingasamt og ofankoma og ekkert þar á milli höfum við þá trú að veðrið verði með svipuðum hætti, að minnsta kosti fram að næstu tunglkomu. Eins og búið er að spá, kemur kröftugt skot núna um helgina en við höfum tilfinningu fyrir því að það standi ekki lengi,“ segja spámenn Dalbæjar sem vona að árið 2020 verði farsælt öllum, bæði hvað veður og annað snertir. Fundur hófst klukkan 13:55 og lauk kl 14:20.

Að lokum fylgir veðurvísa með nýárskveðju til allra frá Veðurklúbbnum á Dalbæ.

Tólf eru synir tímans
sem tifa fram hjá mér.
Janúar er á undan
með árið í faðmi sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir