Undirbúningur að uppsetningu á nýstárlegri gróðurstöð í Miðfirði í fullum gangi

Gróðurstöðvar skoðaðar í Svíþjóð og Hollandi. Frá vinstri: Skúli Húnn Hilmarsson, Björn Líndal Traustason og Hafberg Þórisson. MYND: SSNV
Gróðurstöðvar skoðaðar í Svíþjóð og Hollandi. Frá vinstri: Skúli Húnn Hilmarsson, Björn Líndal Traustason og Hafberg Þórisson. MYND: SSNV

Fulltrúar frá Skógarplöntum ehf. ásamt Magnúsi Barðdal verkefnastjóra frá SSNV vinna nú að uppsetningu á nýstárlegri gróðurstöð til framleiðslu á skógarplöntum í Miðfirði í Húnaþingi vestra. Sagt er frá því á FB síðu SSNV að í tengslum við verkefnið hafi hópurinn farið til Svíþjóðar og Hollands á dögunum til að kynna sér aðrar sambærilegar gróðurstöðvar og skoða búnað frá framleiðendum. Verkefnið hefur verið í undirbúningi í um tvö ár og standa vonir til að framkvæmdir hefjist á árinu.

Leitast verður við að hafa gróðurstöðina með fullkomnustu tækjum sem völ er á sem tryggir hámarksnýtingu á gróðurhúsum og jöfn gæði í allri framleiðslunni.

Björn Líndal Traustason er framkvæmdastjóri Skógarplantna ehf. og er fulltrúi Kaupfélags vestur Húnvetninga sem er einn af stærstu hluthöfum í félaginu ásamt Hafbergi Þórissyni, eiganda Lambhaga gróðurstöðvar. Jafnframt eru Skúli Húnn Hilmarsson og Magnús Barðdal í verkefnahópnum um uppbyggingu á gróðurstöðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir