Veður að ganga niður á Norðurlandi vestra

Um miðnætti fékk Skagfirðingasveit útkall um að Drangey SK 2 væri að losna frá bryggju, á meðan útkalli stóð fóru vindkviður hátt uppí 40 m/s. Mynd: FB Skagfirðingasveitar.
Um miðnætti fékk Skagfirðingasveit útkall um að Drangey SK 2 væri að losna frá bryggju, á meðan útkalli stóð fóru vindkviður hátt uppí 40 m/s. Mynd: FB Skagfirðingasveitar.

Þrátt fyrir að veður sé að ganga niður er enn vonskuveður á Norðurlandi vestra og ekkert ferðaveður. Ófært er á öllum stofnleiðum og rafmagnstruflanir víða og rafmagnsleysi. Björgunarsveitir hafa verið í viðbragðsstöðu og sinnt ýmsum útköllum og segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn, að sveitirnar séu að ná utan um öll verkefni en verið er að sinna verkefni í Langadal en þar fauk þak að hluta af útihúsi.

Starfsfólk Rarik og Landsnets hafa staðið í ströngu en rafmagn hefur verið úti á stórum hluta landshlutans. Rafmagnslaust hefur verið á Hvammstanga og rafmagn er skammtað á Sauðárkróki og á Blönduósi hefur það verið að detta út. Reynt hefur verið að sprauta seltu af línum og koma spennuvirki í Hrútafirði í lag. Einnig hefur verið reynt að halda símstöðinni á Stað í starfhæfu ástandi til að tryggja símasamband og virkni Tetrakerfis.

Allar stofnleiðir í umdæminu eru lokaðar og segist Stefán Vagn búast við því að svo verði fram eftir degi. Kolófært er á Blönduósi en minna er um snjó á Sauðárkróki.

Stefán Vagn segir að sér sýnist sem spáin hafi nánast gengið eftir eins og hún var lögð fram og var því hægt að undirbúa sig vel.

„Fólk virðist hafa undirbúið sig gríðarlega vel, annars vegar hugað vel að lausamunum og gengið frá því það er ekki mikið um útköll í trampólín og því líkt. Og hitt að fólk var ekki mikið á ferðinni. Það þýðir að þá koma ekki þau útköll að þurfa að ná í einhverja upp á Öxnadals- eða Holtavörðuheiði, Vatnsskarð eða Þverárfjall. Þegar björgunarsveitirnar losna við þau útköll geta þær betur sinnt öðrum útköllum sem koma til,“ segir Stefán Vagn. Hann telur að vegna þess hversu snjórinn var blautur og þungur, hafi hann virkað sem farg á þakplötur og því minna um foktjón en búist hafði verið við fyrirfram.

Stefán vill hvetja fólk til að sýna biðlund meðan hlutirnir færist í eðlilegt ástand á ný en allt skólahald liggur niðri og fyrirtæki meira og minna lokuð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir