Veðurteppt á Blönduósi í nótt
Milli sextíu og sjötíu manns gistu í sumarhúsum Glaðheima á Blönduósi í nótt en fólkið varð veðurteppt vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Þar á meðal voru um tuttugu unglingar sem voru á suðurleið frá Akureyri en snéru við í Staðarskála og keyrðu til baka á Blönduós til að fá gistingu.
Fólkið gat haldið för sinni áfram í morgun en þá höfðu aðstæður á Holtavörðuheiði og í Bröttubrekku batnað og óhætt þótti að hleypa umferð aftur á vegina. Enn er þó hvasst á þessum slóðum og víða hálka á vegum.
Fram kemur í fjölmiðlum í dag að hátt í sjötíu unglingar voru veðurtepptir í Staðarskála í nótt. Kristinn Guðmundsson, stöðvarstjóri í Staðarskála, segir í samtali við Rúv allt hafa gengið vel.
/Húni.is