Vindhviður allt að 40m/sek við fjöll

Vindaspá fyrir Norðurland vestra kl. 10:00 í dag. Skjáskot af vef Veðurstofu Íslands.
Vindaspá fyrir Norðurland vestra kl. 10:00 í dag. Skjáskot af vef Veðurstofu Íslands.

Nú er gul veðurviðvörun í gildi um land allt en sunnanstormur gengur nú yfir landið með hlýindum og fór hiti í 17 stig á Seyðisfirði í nótt. Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir að vind lægi síðdegis og þá fari einnig að kólna í veðri.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að á Ströndum og Norðurlandi vestra verði sunnanátt í dag, 18-25 m/sek með vindhviðum allt að 40 m/sek við fjöll. Veðurskilyrði eru því varasöm ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Hiti verður frá 7 til 13 stigum. Síðdegis á að lægja og verður vindstyrkur þá þá 10-18 m/sek.

Á morgun er gert ráð fyrir sunnan og suðaustan átt á landinu, 10-18 m/sek og verður þá hvassast við vesturströndina. Él eða skúrir verða en þurrt að kalla norðanlands. Hiti 0 til 3 stig en vægt frost í innsveitum nyrðra.

Á vef Vegagerðarinnar má sjá að greiðfært er á flestum leiðum í landshlutanum en víða er mjög hvasst. Vindhviður hafa farið yfir 50 m/sek við Stafá og þar er 10 stiga hiti. Á Þverárfjalli er vindur í hviðum í kringum 30 m/sek og víðast hvar fara hviður vel yfir 20 metrana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir