Forvitnileg folaldasteik og fleira gott

Matgæðingarnir Zanny og Jóhann. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Zanny og Jóhann. Aðsend mynd.

Matgæðingar vikunnar í 44. tbl. árið 2017 voru þuau Zanny Lind Hjaltadóttir og Jóhann Hólmar Ragnarsson, bændur á Syðri-Brekku í Húnavatnshreppi. Við skulum gefa þeim orðið: 
 „Sæl öll. Við heitum Zanny og Jói og búum á Syðri-Brekku ásamt börnum okkar þremur. Við rekum þar lítið sauðfjárbú ásamt því að vera að fikra okkur áfram í hrossarækt. Hér á eftir koma nokkrar af uppáhalds uppskriftum fjölskyldunnar, við vonum að þið prófið og líkið vel,“ segja matgæðingarnir okkar.

AÐALRÉTTUR
Folaldasteik með kúmeni

Við borðum mikið folaldakjöt en þessi eldunaraðferð er algjört uppáhald. Hægt er að nota þetta á alla parta, hvort sem það er klumpur eða lund!

Yfirleitt er kjötinu leyft að þiðna við stofuhita í sólarhring. Rétt fyrir eldun er gaffli stungið eins oft og þurfa þykir í kjötið (mjög góð leið til að losna við uppsafnaða gremju ef þess þarf!!). Stráið salti og heilu kúmeni yfir kjötið. Bræðið smjörlíki á pönnu og steikið kjötið í um eina mínútu á hvorri hlið. 

Setjið í eldfast mót og inn í heitan ofn (180-200°C, blástur). Eldunartími er misjafn eftir þykkt og lögun steikarinnar en við viljum hafa kjötið svolítið bleikt í miðjunni. Yfirleitt duga 10 mín á hvorri hlið fyrir „medium rare“ eldun. Leyfið kjötinu að standa á borðinu í 5 mínútur áður en skorið er í það.

Á meðan kjötið er í ofninum er sósan búin til. Takið 1 stk. villisveppaost og rífið niður í pott. Bræðið ostinn í ½ lítra af matreiðslurjóma. Það má þykkja sósuna með kartöflumjöli ef þurfa þykir.

Kjötið er svo borið fram með salati, baunum og ofnbökuðum kartöflum. 

EFTIRRÉTTUR
Besta súkkulaðikaka í heimi
Húsbóndinn er mikill sælkeri og veit fátt betra en volga súkkulaðiköku. Þessi hefur heldur betur slegið í gegn!

2 bollar hveiti
2 bollar sykur
¼ tsk salt
4 msk kakó
250 g smjörlíki
1 bolli vatn
½ bolli AB mjólk
2 egg
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilludropar

Aðferð:
Bræðið smjörlíki í potti og hrærið kakóinu saman við. Sjóðið vatnið og hellið út í kakósmjörlíkið. Látið sjóða í 30 sekúndur og geymið. Blandið þurrefnunum í skál (öllu nema matarsódanum) og hellið svo heitri kakóblöndunni yfir. Hrærið örlítið til þess að kæla blönduna.
Blandið saman AB mjólk, eggjum og vanilludropum og matarsóda. Hrærið vel og blandið svo saman við restina af deiginu.

Bakið við 180-200°C í 20 mínútur.

Súkkulaðikrem
200 g smjörlíki
4 msk kakó
6 msk mjólk
1 tsk vanilludropar
450 g flórsykur

Aðferð:
Bræðið smjörlíkið í potti og hrærið kakóinu saman við. Látið malla í 30 sekúndur og takið af hitanum. Bætið mjólk og vanilludropum við og hrærið. Bætið að lokum flórsykrinum við og hrærið vel. Það er mjög gott að bæta við pekanhnetum ef skapið er þannig. 

SÉRLEGA GÓÐ SÓSA
Sósa með reyktu kjöti
Að lokum viljum við henda fram auðveldri en rosalega góðri sósu sem hentar vel með öllu léttreyktu kjöti.

250 g sveppir
smjör til steikingar
250 g sveppasmurostur
½ l matreiðslurjómi
2 msk púðursykur
1 msk sætt sinnep

Aðferð:
Steikið sveppina í smá smjöri. Bætið rjómanum og ostinum saman við og látið malla á lágum hita þar til osturinn er bráðinn. Bætið púðursykri og sinnepi saman við. Má þykkja með kartöflumjöli ef þurfa þykir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir