Fyrirhugað að auka urðun í Stekkjarvík

Urðunarsvæðið við Stekkjarvík. Mynd: Stekkjarvik.is
Urðunarsvæðið við Stekkjarvík. Mynd: Stekkjarvik.is

Byggðasamlagið Norðurá bs undirbýr nú mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar aukningar á árlegu magni til urðunar á urðunarstaðnum í Stekkjarvík í landi Sölvabakka, utan við Blönduós. Norðurá leigir landið í Stekkjarvík af landeigendum Sölvabakka og gildir leigusamningurinn til ársins 2038. Urðað hefur verið á svæðinu síðan 2011.

Ætlunin er að auka urðun úr 21.000 tonnum árlega í 30.000 tonn, eða samtals um 9.000 tonn á ári.  Ekki er um að ræða aukningu á heildarmagni urðaðs úrgangs í Stekkjarvík, sem eftir sem áður er áætlaður 630.000 tonn í lok rekstartímans árið 2038.

Í matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd, valkostum og framkvæmdarsvæði lýst og fjallað um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum. Einnig er þar tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matsvinnuna og hvaða viðbótargagna þurfi að afla vegna verkefnisins. Í frummatsskýrslu verður lagt mat á áhrif framkvæmdar á eftirfarandi þætti: Landslag og sjónræn áhrif; loft og hætta - gasmyndun; loft – lyktarmál; vatn og jarðvegur, þ.m.t. sigvatn; hljóðvist; hreinlæti – fok úrgangs og annarra efna; hreinlæti og hætta – fuglar og meindýr; samfélag og umferð.

Drög að tillögu að matsáætlun aukningar urðunarinnar eru birt á heimasíðu EFLU. Allir geta gert athugasemdir eða komið með ábendingar við drög að tillögu að matsáætlun. Athugasemdir og ábendingar skal senda til Friðriks K. Gunnarssonar hjá EFLU verkfræðistofu með tölvupósti á netfangið fridrik.gunnarsson@efla.is fyrir 13. mars 2019. Merkja skal athugasemdir: Urðunarstaðurinn í Stekkjarvík – aukning á urðun.

Að loknum kynningartíma verður lokið við tillögu að matsáætlun með tilliti til þeirra athugasemda sem berast og hún send Skipulagsstofnun til meðferðar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum. 

Drög að matsáætlun má finna hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir