Góðar væntingar til sumartunglsins

Af Nöfum á Sauðárkróki. Mynd: PF.
Af Nöfum á Sauðárkróki. Mynd: PF.

Þriðjudaginn 7. apríl var haldinn „fundur“ í Veðurklúbbi Dalbæjar sem var með öðru sniði að þessu sinni vegna hinna fordæmalausu aðstæðna sem allir þekkja. Spámenn komu ekki saman heldur var hver og einn tekinn tali einslega, eftir því sem  fram kemur í tilkynningu frá klúbbnum. Flestallir voru á því að rétt hafi verið spáð fyrir um áttirnar í mars en mánuðurinn var heldur harðari en gert var ráð fyrir.

Páskatunglið sem kviknaði 24. mars í suðaustri er ríkjandi þennan mánuð en sumartungl kviknar 23. apríl kl 02:26 í norðri og hafa spámenn tilfinningu fyrir því að með því tungli komi breytingar.

„Veðurfarið fram yfir páska verður með breytilegum vindáttum og umhleypingasamt. Erfitt er að spá fyrir um veður eins og dæmin sanna en ekki er gert ráð fyrir neinni hörku hér á okkar svæði í kringum páskana,“ segir í skeyti Dalbæinga sem flytur lesendum kærar páskakveðjur. Samkvæmt venju fylgir veðurvísa og nú með væntingar til vorsins:

Í apríl sumrar aftur,
þá ómar söngur nýr.
Í maí flytur fólkið
og fuglinn hreiður býr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir