HÚNAVAKA : Verðlauna sviðasulta frá SAH og sinnep
Feykir plataði Héðinn Sigurðsson til að svara nokkrum laufléttum spurningum varðandi Húnavökuna en hann mætir til leiks í einu auglýstra atriða bæjarhátíðarinnar. Héðinn býr í Kringlunni/Melabraut í Reykjavík fyrir sunnan og starfar sem heimilislæknir.
Hvað ætlar þú að gera á Húnavöku í ár? Ég mæti að sjálfsögðu svo fólk geti skemmt sér. Fer á Kótilettukvöld með Þórhalli Barðasyni, tónleika með Halla og félögum og aðra tónleika með Sigurdísi Söndru á Heimilisiðnaðarsafninu.
Ef Húnavaka væri langloka, hvað væri áleggið? Verðlauna sviðasulta frá SAH og sinnepi.
Hvenær var eftirminnilegasta Húnavakan? Leiksýningar í félagsheimilinu gátu svo sannarlega örvað skynfæri barns á áttunda áratugnum, það er eftirminnilegt.
Hvernig lýsir þú Húnavöku í fimm orðum? Vilkovöfflurölt, lambakotilettur, Blönduhlaup, fagnaðarfundir og kærleikur.