Jaaaá, Hemmi minn

Verður Murielle á skotskónum í kvöld?  MYND: ÓAB
Verður Murielle á skotskónum í kvöld? MYND: ÓAB

Það verður talsvert um tuðruspark á Norðurlandi vestra nú um helgina. Stólastúlkur renna á vaðið í kvöld þegar Haukar úr Hafnarfirði mæta á teppið. Á laugardag taka síðan Tindastólsmenn á móti liði Fjarðabyggðar í 2. deild karal og í 4. deildinn fær lið Kormáks/Hvatar Snæfell í heimsókn á Hvammstangavöll. Þannig að það er ljóst að þeim sem eru alltaf í boltanum ætti ekki að þurfa að leiðast.

Leikur Tindastóls og Hauka í Inkasso-deildinni hefst kl. 19:15 í kvöld. Fyrir leikinn í kvöld er lið Tindastóls í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig en Haukar eru í sjötta sæti með 12 stig. Með sigri næðu stelpurnar að hanga í pilsfaldi toppliða FH og Þróttar Reykjavíkur og sömuleiðis að slíta sig svolítið frá miðjupakka deildarinnar. Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara Tindastóls, segir að staðan á liðinu hafi þó verið betri en nú. „Hugrún, Hrafnhildur, María og Krista [eru] allar fjarverandi vegna meiðsla og leikbanna. Allt stelpur sem væru venjulega að byrja. En við munum berja i brestina og stefna á þrjú stig,“ segir Jón Stefán. Það er því talsvert undir í kvöld og stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna á völlinn því stelpurnar þurfa góðan skammt af peppi. 

Karlalið Tindastóls situr á botni 2. deildar með fimm stig en strákarnir fá lið Fjarðabyggðar í heimsókn á laugardag og hefst leikurinn kl. 16:00. Austfirðingarnir eru í 8. sæti með 17 stig og það verður að teljast hausverkur Tindastóls í baráttunni framundan að keppnin í 2. deild er ansi jöfn og heil 10 stig skilja að Stólana og öruggt sæti í deildinni. Það eru þó góðar fréttir úr herbúðum Stólanna að Sverrir Hrafn er kominn á völlinn að nýju eftir að hafa hlotið slæmt höfuðhögg fyrr í sumar. Þá er Konni fyrirliði kominn í hópinn á ný eftir meiðsli og nýr leikmaður, Englendingurinn Kyen Nicholas, sömuleiðis en hann gæti mögulega verið í níunni á morgun. Leikurinn leggst vel í Arnar Skúla Atlason, þjálfara Tindastóls, en hann segir menn vera búna að leggja gríðarlega vinnu á sig í vikunni og allir leikmenn liðsins til í slaginn.

Í B-riðli 4. deildar mætast lið Kormáks/Hvatar og Snæfells í mikilvægum slag á Hvammstangavelli en leikurinn hefst kl. 17:00. Húnvetningar eru í þriðja sæti riðilsins, fimm stigum á eftir toppliðunum tveimur; Hvíta riddaranum og Snæfelli, sem er einmitt mótherjinn um helgina. Með sigri kæmist lið Kormáks/Hvatar fyrir alvöru í toppbaráttuna þegar þrjár umferðir eru eftir af mótinu, en tvö efstu liðin í hverjum riðli 4. deildar komast í úrslitakeppnina þar sem barist verður um tvö laus sæti í 3. deild. 

Allir á völlinn og áfram gakk!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir