Langt var róið og þungur sjór
Út var að koma bókin Langt var róið og þungur sjór: líkön Njarðar S. Jóhannssonar af norðlenskum fiski- og hákarlaskipum og frásagnir af afdrifum þeirra. Hún er gefin út í tilefni af 80 ára afmæli Njarðar, sem var 4. apríl síðastliðinn og fjallar um 24 hákarlaskip á 19. öld og tvö þorskveiðiskip, sem flest voru smíðuð og gerð út í Fljótum í Skagafirði, en sviðið nær þó að hluta einnig að austanverðum Eyjafirði, og vestar, að Skagaströnd. Höfundur er Sigurður Ægisson.
Enginn núlifandi Íslendingur þekkir betur til báta- og skipasögu Norðlendinga fyrr á öldum en Njörður, enda hefur hann um árabil leitað heimilda og grandskoðað það sem fundist hefur. Hann er fæddur á Siglufirði, hefur búið þar alla tíð og á ættir að rekja til mikilla skipasmiða og hákarlasjómanna í Fljótum. Einn þeirra, langafi hans í móðurætt, Kristján Jónsson í Lambanesi, var t.d. á Fljóta-Víkingi í um áratug, þar sem róið var allt norður fyrir Kolbeinsey.Njörður lærði múrverk í Iðnskólanum á Siglufirði, fékk síðar meistararéttindi og starfaði eftir það sjálfstætt, en tók jafnframt fagteikningar í trésmíði.
Bókin
Skipin, sem um er fjallað, eru í stafrófsröð þessi: Álka, Bæringur, Blíðhagi, Bliki (1), Bliki (2), Farsæll (1), Farsæll (2), Fljóta-Víkingur, Gestur, Haffari, Hákarl/Haffrúin, Háski, Hermóður, Hraunaskipið, Hreggviður, Hyltingur, Jóhanna, Lati-Brúnn, Látra-Felix, Marianna, Óskin, Skagaströnd, Svarfdælingur, Uggi, Víkingur og Vonin.
Dalrún Kaldakvísl, sem ritar einn kafla bókarinnar, um hákarlamennsku, er doktor í sagnfræði, hefur sérhæft sig í téðum fiski og einnig kynnst vel líkönum Njarðar og á ekki orð til að lýsa hrifningu sinni á þeim. Hún segir orðrétt í skrifi sínu:
Ég hélt til fundar við téðan hákarlaskipslíkanasmið, Njörð Sæberg, einn allhvassan vetrardag fyrir norðan [23. nóvember 2022]. Við mæltum okkur mót í Siglufjarðarkirkju, þar sem málverk af sjómönnum í sjávarháska hangir fyrir ofan altarið. Ég var með viðtalsupptökubúnað í farteskinu en Njörður var með fagursmíðuð hákarlaskipslíkön sín; smágerð segl skipslíkananna þöndust í norðanvindinum er hann ferjaði þau úr bílnum inn í kirkjuna. Ég gangsetti upptökubúnaðinn, hljóðupptökutæki og kvikmyndavél, svo ég mætti fanga raust Njarðar og ásýnd hákarlaskipslíkananna. Fyrst í stað var þögn er Njörður raðaði líkönunum á borðið, líkt og hann væri að leggja á söguborð. Síðan lygndi Njörður aftur augunum og hóf frásögn sína, augu sem hann opnaði eingöngu í frásögn sinni þegar hann fór höndum um skipslíkönin. Ég hafði lesið fjölda lýsinga hákarlaformanna á hákarlaskipum sem þeir stýrðu og treystu á; lýsingar sem vitnuðu um djúp tilfinningatengsl formanna við skip sín. Í viðtalinu mátti greina að hákarlaskipslíkanasmiðurinn Njörður, líkt og gömlu hákarlamennirnir, bjó að djúpstæðum tengslum við hákarlaskipin. Hann reifaði af virðingu og hlýhug löngu liðna daga hákarlaskipanna er þau klufu öldurnar með fullfermi af hákarlslifur, fögur smíði sem minnti á skúlptúra á sjávarfletinum. Síðan greindi hann bljúgur frá skapadómi hákarlaskipanna, sem sum hver grotnuðu í flæðarmálinu á meðan önnur hurfu í undirdjúpin. „Loksins birtast hin sögulegu hákarlaskip ljóslifandi fyrir augum mér,“ sagði ég upprifin við Njörð er hann handlék fínsmíðaðan skips-kjöl með grófum höndum sínum. Njörður notaði hákarlaskipslíkönin sem sviðsmynd er hann rifjaði upp feikimargar undraverðar fortíðarsagnir af hákarlaveiðum, hákarlaskipsmíðum og hákarlaskips-hrakningum. Þær munnlegu sagnir Njarðar hverfðust um fyrri alda nærsveitunga hans og forfeður sem stunduðu hákarlaveiðar: „Langafi minn sem fæddur var árið 1854 sagði mér margar sögur af því þegar hann var í hákarlalegum,“ sagði Njörður er hann rifjaði upp orð langafa síns sem hann heyrði á sem lítill drengur: „Ég settist á rúmstokkinn hjá honum og hann klappaði mér og sagði mér ýmsar sögur af hákarlaveiðum Fljótamanna.“ Söguleg stund, hugsaði ég, sagnfræðingurinn, er ég heyrði á sögumanninn Njörð Sæberg sem býr að hafdjúpu minni og goðkynjaðri listhneigð. Söguleg stund, kæri lesandi, sem þú munt upplifa með lestri þínum á þessari einstöku bók um listalíkön Njarðar.
Í bókinni er fjöldi mynda og líka kort af helstu bæjum í Fljótum og Sléttuhlíð, sem þessari skipa- og útgerðarsögu tengjast, sem og kort sem sýnir útbreiðslu hákarlsins nú um stundir og hákarlamiðin sem þessir garpar sóttu á, jafnvel allt norður fyrir Kolbeinsey, og það á opnum skipum. Sum þessara miða er einungis að finna í textalýsingum, en bókarhöfundur fékk aðstoð kortadeildar Landhelgisgæslunnar til að staðsetja þau, eftir því sem hægt er, og var í sambandi við Hafrannsóknastofnun vegna hins sama.
Bókin er um 270 blaðsíður að umfangi.
Mikil saga
Í viðtali, sem er á undan umfjölluninni um skipin, eitt af öðru, segir Njörður m.a. um lífið í Fljótum á 18. og 19. öld:
Lífsbaráttan var erfið, því útveginum fylgdu ætíð sjóskaðar. Á árunum 1790–1793 fórust t.a.m. fimm hákarlaskip úr Fljótum, og þá urðu sextán konur ekkjur og fjörutíu börn munaðarlaus. Og í áðurnefndum Krossmessubyl, í maí 1922, þegar Marianna sökk, fórust einnig Aldan, Hvessingur og Samson.
Þetta er Nirði afar hugleikið, ekki síst hlutskipti þeirra sem eftir lifðu.
„Það er ekki nógu mikið skrifað um konurnar og það sem þær máttu lifa við,“ segir hann. „Langamma mín í föðurætt, Sigurlaug Sigurðardóttir, „söngs“, gaf mér eitt sinn í afmælis-gjöf, þegar ég var ungur, fyrsta bindi af Þjóðsögum Jóns Árnasonar, frumútgáfuna. Inni í þeirri bók voru lýsingar á árabátum og handskrifað bréf frá Sigurlaugu til tengdadóttur sinnar, Jóhönnu, ömmu minnar, sem er merkilegt að því leytinu til, að þar kemur fram það sem snýr að konunum, þessara manna sem voru í Fljótunum, það er óttinn; hún hugsaði mikið um óttann og það hvað þessar konur hafi mátt þola sem áttu menn sem fóru í hákarl og komu ekki aftur. Og um börnin sem þær misstu. Þetta var oft rosalegt. Og mér finnst að hlutur kvenna í sambandi við útgerðina í Fljótunum hafi verið svo lítils virtur. Það er ljót saga. Til dæmis Helga, móðir Einars B. Guðmundssonar, ég held að hún hafi misst 9 eða 10 börn. Og Björg, langalangamma mín, kona Sæmundar Jónssonar, missir fyrstu tvö börnin sín. Svona var nú lífið hjá þessu fólki. Það var kíghósti, lungnabólga, taugaveiki, börn dóu mánaðargömul, þriggja ára, allt hvaðeina. Og þegar maður fer að líta í gamlar kirkjubækur þá er eitt árið, sem ég rak augun í, alveg skelfilegt, þá voru í Barðssókn 45 dauðsföll, í Holtssókn 30 og í Knappstaðasókn 14.
Skúli Magnússon, sem var sýslumaður Skagfirðinga, síðar landfógeti, segir frá því á einum stað, að eitt það erfiðasta sem hann hafi komist í á ferli sínum hafi verið það að fara yfir í Fljót, þá hafði farist sexæringur, og uppi stóðu 32 börn munaðarlaus, og hann var að gera upp heimili og reyna að koma öllu fyrir.
Mér finnst að bókin Tvennir tímar: endurminningar Hólmfríðar Hjaltason, sem Elínborg Lárusdóttir tók saman og kom fyrst út árið 1949, ætti að vera skyldulesning á Íslandi, bara til að fólk átti sig betur á því hvernig þetta var hér á árum áður.“
Annað, sem líkanasmiðurinn nefnir, eru tengsl fyrri alda sjómanna í Fljótum við kirkjuna og trúna. Ein af rammagreinunum í bókinni, sem ber yfirskriftina Gamall siður úr Fljótunum, er svofelld, höfð beint eftir Nirði:
Sá siður var í Fljótum, að þegar skip var komið á flot, þá var því snúið einn hring réttsælis. Síðan var það sett út 200–250 metra og þar lögðust menn að árum, þannig að þeir ýttu þeim niður, framendarnir stóðu þá upp í loft, og svo lutu þeir höfði og farið var með sjóferðabænir. Byrjað var fremst í skipinu og svo látið ganga aftur með. Hver og einn átti sína bæn, sem hann fór með, formaðurinn var síðastur, las fyrst einhverja ritningargrein úr bók, sem var lögð á altarið, en það var nánar tiltekið fjöl sem var negld ofan á lunninguna yfir næstöftustu þóftu, og svo fór hann með sína eigin sjóferðabæn og eftir það með sjóferðabæn skipsins. Eftir það var lagt af stað í túrinn.
Ásgrímur Sigurðsson, langafi minn, skrifar í dagbók sína, að á tímabilinu 1843–1850 hafi verið 27 skip í Fljótum og af þeim hafi níu verið fjórróin, þ.e.a.s. vetrarskip, tólf verið sexæringar, einnig vetrarskip, og sex verið áttæringar, þ.e.a.s. vorskip, og að í flestöllum þessum skipum hafi verið altari. Ég veit ekki hvort þetta var eins annars staðar í landinu.
Hann veit líka eldri dæmi, nefnir að Þorsteinn Eiríksson á Stærri-Bakka á Bökkum 1782–1792 hafi átt vetrarskip og í því hafi verið altari og hann hafi alltaf farið með sjóferðabæn þegar hann hafi farið á sjó til þorskveiða eða í hákarl. Og eins hefur hann skrifað að Þorleifur Sveinsson, sem var bóndi á Ysta-Mói 1815–1851, hafi alltaf haft í sínum skipum altari og farið með sjóferðabæn.
Bjarni Jónsson listmálari var einhverju sinni á ferð nyrðra, og þar á meðal á Siglufirði, var þá með málverkasýningu, þetta var einhvern tímann á síðasta áratug 20. aldar, og þá sagði ég honum frá þessu. Hann kvaðst ekki hafa heyrt um slíkt áður og var hann þó vel að sér, sá t.d. um allar skýringarteikningar í ritverki Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkum sjávarháttum, sem kom út á árunum 1980–1986. Í kjölfarið, 1997, málaði hann svo þessa helgu athöfn.
Með þessum listaverkum skilur Njörður eftir sig mikinn fjársjóð handa núlifandi kynslóð, sem og hinum ófæddu, gjöf, sem aldrei verður að fullu hægt að þakka nógsamlega.
/Fréttatilkynning frá Bókaútgáfunni Hólum
