Meiri veiði í Laxá á Ásum og Hrútafjarðará og Síká en á síðasta ári

Axel Björn Clausen með stórlaxinn. Mynd:votnogveidi.is
Axel Björn Clausen með stórlaxinn. Mynd:votnogveidi.is

Miðfjarðará er nú í fjórða sæti yfir aflahæstu laxveiðiár landsins á lista sem Landssamband veiðifélaga birtir vikulega en var í þriðja sæti í síðustu viku. Þar hafa 1.324 laxar komið á land í sumar og var veiði síðustu viku 131 lax. Á sama tíma í fyrra hafði áin skilað 2.360 löxum sem er 1.036 fiskum meira en í ár.

Laxá á Ásum er næstaflahæst húnvetnsku ánna með 682 laxa, þar af 65 síðustu vikuna. Ólíkt flestum öðrum ám hefur hún gefið meiri veiði en á sama tíma á síðasta ári þegar veiðst höfðu 644 laxar á sama tíma. Blanda er í áttunda sæti á listanum með 632 laxa miðað við 861 á síðasta ári og í Víðidalsá sem er í 18. sætinu hafa veiðst 360 laxar en voru 510 í fyrra. Vatnsdalsá er svo í 20. sæti með 338 en voru 414 fyrir ári síðan.

Rétt eins og í Laxá á Ásum hefur veiðst meira í Hrútafjarðará og Síká þetta árið en í fyrra. Þar hafa nú veiðst 290 laxar en voru 278 í fyrra. Svartá situr svo í 45. sæti listans með 38 laxa miðað við 111 á sma tíma sl. ár.

Á Sporðaköstum, veiðifréttum Mbl.is, birtist sl. þriðjudag frétt um stórlax sem veiddist í Dalsárósi í Víðidalsá. Þar var Axel Björn Clausen sem veiddi 104 cm bolta og má lesa frásögn Axels hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir