Páskadagur

Kristur upprisinn, málverk eftir pólska málarann Szymon Czechowicz, málað um 1758
Kristur upprisinn, málverk eftir pólska málarann Szymon Czechowicz, málað um 1758

Samkvæmt trúarhefð kristinna manna var það á sunnudeginum á páskum gyðinga sem María Magdalena og María móðir Jakobs (Markúsarguðspjallið 16. kafla) sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni því að hann hafði risið upp frá dauðum. Kristnir menn halda þess vegna páskadaginn sem gleði og fagnaðardag. Jesús lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi á krossinum og það gerir páskana að mestu hátíð kristinna manna og forsendu kristinnar trúar.

Á WikiPedia segir að allt frá árinu 325 ber páskadaginn ætíð upp á fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægri á vori. Tunglfyllingardagur þessi er þó ekki raunveruleg tunglfylling heldur er hann reiknaður út samkvæmt ákveðinni reglu en fylgir þó oftast raunverulegri tunglfyllingu nokkuð náið. Í vestrænni kristni geta páskar allra fyrst verið 22. mars og seinast 25. apríl.

Samkvæmt guðspjöllunum birtist Jesús mörgum og víða eftir upprisuna allt fram að uppstigningardegi 40 dögum eftir páska, þá steig hann til himna og situr þar við hægri hönd Guðs.

Upphaf páska
Samkvæmt söguhefð gyðinga eiga páskarnir uppruna í útförinni af Egyptalandi (Exodus) er Móses leiddi Ísraelsmenn út úr ánauðinni hjá faraó, gegnum Rauðahafið og eyðimörkina í átt til hins fyrirheitna lands eins og sagt er frá í Biblíunni í 12. kapítula 2. Mósebókar. Þar segir að Guð hafi sagt Móses að hann ætli að „fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað“ svo að faraó sleppti gyðingum úr landi. Til þess að Guð gæti þekkt hvar gyðingarnir bjuggu var þeim uppálagt að slátra lambi og rjóða blóði þess á dyrastafi hýbýla sinna. Pesah (páskar) hefur í þessum texta verið þýtt sem „framhjáganga“ vegna þess að Drottinn hét að „Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland“.

Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana Festum festorum eða hátíð hátíðanna. Tilefnið er upprisa Jesú en kristnir menn trúa því að hann hafi risið upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann var krossfestur einhvern tíma á árabilinu AD 27 til 33. Samkvæmt frásögum í Nýja testamentinu (Matt. 26.-27. kap., Mark. 14.-15. kap., Lúk. 22.-23. kap. og Jóh. 18.-19. kap.) bar handtöku og krossfestingu Jesú upp á páskahátíð gyðinga. Páskalambið varð að tákni fyrir Jesú í hugum kristinna manna því honum var fórnað á sama hátt og lambinu.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir