Saumaði íslenska búninginn á strákana sína

Friðfinna Lilja Símonardóttir í notalegri peysu sem hún prjónaði. Aðsendar myndir.
Friðfinna Lilja Símonardóttir í notalegri peysu sem hún prjónaði. Aðsendar myndir.

Friðfinna Lilja Símonardóttir sagði lesendum frá handavinnunni sinni í 12. tbl. Feykis árið 2018. Friðfinna býr í Keflavík en er uppalin á Barði í Fljótum. Hún hefur lengi haft áhuga á margs kyns handverki og meðal annarra starfa sem hún hefur gegnt var starf hannyrðakennara við Grunnskólann á Hofsósi en þar bjó hún um nokkurra ár skeið. Hún segir að skemmtilegustu verkefnin séu að prjóna á barnabörnin en hún og maður hennar eiga samtals sex barnabörn. 

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég byrjaði strax sem barn að gera handavinnu og tók fyrstu sporin hjá Auði Ketilsdóttur sem var handavinnukennari í barnaskólanum á Sólgörðum í Fljótum. 

Hvaða handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?
Mér finnst skemmtilegast að prjóna hinar ýmsu flíkur og hef mjög gaman af því að prófa eitthvað nýtt í þeim efnum. Það allra skemmtilegasta sem ég geri er að prjóna á barnabörninn okkar Sigmundar og telur ríkidæmið okkar nú sex barnabörn.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?
Þessa dagana er ég að vinna að bútasaumsteppi fyrir frumburðinn hann Vilhjálm Símon sem er búinn að bíða og bíða eftir teppinu og sér nú fyrir endann á þeirri bið. Eins er ég að prjóna lopapeysu með hestamunstri fyrir eitt af barnabörnunum mínum. 

Hvernig fékkstu hugmyndina?

Peysa með hestamunstri.


Hugmyndina að hestapeysunni átti barnabarnið, hann Hafsteinn Liljar sjálfur, og hafði mjög ákveðnar skoðanir á litavali sem farið var eftir að öllu leyti. 

Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með? 
Það sem stendur upp úr af öllu sem ég hef gert er þegar ég saumaði íslenska þjóðbúninginn á strákana mína fyrir margt löngu.

 

Barnasett. Húfa, vettlingar og sokkar.  Bútasaumsteppi.  
Ugluteppi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir