Stórátaks þörf í atvinnumálum á Norðurlandi vestra

Á fundi stjórnar SSNV sem haldinn var þann 6. ágúst sl. var lögð fram greining á fjölda starfandi einstaklinga í landshlutanum og samanburð á milli áranna 2005, 2010 og 2018, byggt á tölum frá Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að milli áranna 2010 og 2018 fjölgar starfandi einstaklingum á Norðurlandi vestra um 141 sem er 3,1% fjölgun. Á sama tíma er fjölgunin á landinu öllu 23%. 

Í fundargerð stjórnar segir: „Ef skoðuð er þróunin frá árinu 2005 kemur í ljós að starfandi einstaklingar eru ennþá færri á Norðurlandi vestra en þá var. Athyglisvert er að eina sveitarfélagið í landshlutanum sem hefur náð að fara fram úr fjölda starfandi einstaklinga árið 2005 er Blönduósbær þar sem uppbygging gagnavers hefur átt sér stað á undanförnum misserum.“

Stjórn SSNV telur því ljóst að stórátaks sé þörf í atvinnumálum í landshlutanum, þrátt fyrir að starfandi einstaklingum hafi fjölgað. Framkvæmdastjóra var því falið að fá fund með ráðamönnum til að ræða stöðu landshlutans og hugmyndir sveitarfélaganna á starfssvæðinu til úrbóta.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir