Talsvert magn fíkniefna gert upptækt

Lögreglan á Norðurlandi vestra greinir frá því á Facebooksíðu sinni að vel hafi tekist til um Laufskálaréttarhelgi, sem hafi farið vel fram svo og viðburðir henni tengdir. Fjöldi ökumanna var stöðvaður fyrir ýmiss konar umferðarlagabrot og var hraðakstur þar mest áberandi. Þá komu þrjú fíkniefnamál upp um helgina og var þar um að ræða talsvert magn fíkniefna sem talið er að hafi verið ætlað til sölu á svæðinu. Lögreglan á Norðurlandi vestra naut aðstoðar fíkniefnaleitarhunds og þjálfara lögreglunnar á Austurlandi en fjöldi lögreglumanna stóð vaktina um helgina.

Þá segir frá því að fyrri part vikunnar hafi lögreglan á Norðurlandi vestra lagt hald á umtalsvert magn fíkniefna þar sem um var að ræða bæði kannabisefni og örvandi efni sem talin eru hafa verið ætluð til sölu. Ennfremur voru sex ökumenn kærðir í sömu viku vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Lögreglan minnir enn og aftur á fíkniefnasímann 800-5005, sem er gjaldfrjálst símanúmer, þar sem unnt er að koma á framfæri ábendingum um fíkniefnamál.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir