Tilslakanir vegna Covid19

Covid19 veirusýkingin sem geisað hefur hér á landi síðastliðna mánuði er nú á hraðri niðurleið. Enn höfum við þó ekki náð fullum sigri á faraldrinum, þar sem enn greinast ný smit og töluverður fjöldi fólks er enn í einangrun. Hér á Norðurlandi vestra urðum við vel vör við sjúkdóminn þar sem að 35 einstaklingar veiktust, sem allir hafa náð bata. Það má þakka skjótum viðbrögðum og mikilli samstöðu íbúa að ekki kom til aukinnar útbreiðslu sjúkdómsins.

Nú 4. maí breytast reglur um samkomubann hér á landi. Þannig hækkar fjöldi þeirra sem mega koma saman úr 20 í 50 manns. Framhalds,- og háskólar geta aftur opnað fyrir nemendum og ýmiss konar þjónusta má aftur hefjast. Fjöldatakmarkanir fyrir börn í skólastarfi, íþróttaiðkun og æskulýðsstarfi falla niður. Enn eru þó töluverðar takmarkanir í gangi, sérstaklega þegar kemur að íþróttastarfi, t.d. eru sundlaugar og líkamsræktarstöðvar lokaðar almenningi, og ýmis afþreying fullorðinna, t.d. skemmtistaðir, krár og spilasalir. Ýtarlegri upplýsingar um þessar breytingar má finna á covid.is.

Þó svo að nú séu komnar fram tilslakanir hvað varðar samkomubannið þá verðum við áfram að vera á tánum til að koma í veg fyrir aukna útbreiðslu sjúkdómsins. Það er jafn mikilvægt nú sem fyrr að við verndum viðkvæma hópa samfélagsins og reynum jafnframt að koma í veg fyrir hópsmit. Því er mikilvægt að við fylgjum þeim reglum sem fram eru settar.

Mikilvægasta vörnin gegn sýkingum er almennur handþvottur. Þá er að þvo hendur með sápu sem borin er vel á alla höndina og dreift um í a.m.k. 20 sekúndur í hvert skipti. Einnig er hægt að nota handspritt. Mikilvægt er einnig að sótthreinsa reglulega alla snertifleti. Mikilvægt er að takmarka náin samskipti við annað fólk og viðhalda tveggja metra reglunni og forðast mannmergð. Ef við finnum til flensueinkenna þá er mikilvægt að dvelja í sjálfskipaðri sóttkví og forðast að hitta annað fólk og hafa samband við heilsugæsluna.

Vilja almannavarnir á Norðurlandi vestra þakka íbúum fyrir hversu vel þeir hafa brugðist við fyrirskipunum stjórnvalda og með því náð þeim árangri sem við höfum nú náð. Því öll erum við almannavarnir.
Fyrir hönd aðgerðastjórnar almannavarna á Norðurlandi vestra

Bjarni K. Kristjánsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir