Tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt frumvarp félags- og barnamálaráðherra um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera veikir. Markmið frumvarpsins er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, s.s. veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við.

Á vef ráðuneytisins kemur fram að með frumvarpinu sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Frumvarpið kemur fram í kjölfar yfirlýsingar ríkistjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um laun í sóttkví sem birt var 5. mars sl.

Frumvarpið tekur til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur gilda lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda sínum. Þá gilda lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.

Skilyrði fyrir greiðslum eru m.a. að launamaður hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Gilda sambærileg skilyrði fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir