Tíu daga matarhátíð á Norðurlandi vestra

Matarhátíðin Réttir verður haldin í fyrsta skipti á Norðurlandi vestra dagana 16. – 25. ágúst. Það eru veitingahúsaeigendur og framleiðendur á svæðinu sem standa að hátíðinni.

Í kynningu á viðburðinum segir að ætlunin sé að bjóða gestum upp á skemmtilega upplifun og fræðslu um mat og menningu á svæðinu. Fjölmargar uppákomur verða þessa tíu daga um svæðið vitt og breitt, allt frá Laugarbakka í Miðfirði að vestan til Fljóta í Skagafirði.

Á heimasíðu hátíðarinnar má kynna sér það sem í boði er og er úrvalið mikið og margt sem vekur forvitni. Meðal þess sem í boði er má nefna kartöfluupptöku á Sveitasetrinu Hofsstöðum í Skagafirði, kynningu og smakk á gamla íslenska matnum í Áskaffi í Glaumbæ, svínasnitzel sem framreitt er upp á pólska vísu af Jolanta Tomaszewska á Kiljunni á Blönduósi og eþíópískt kvöld á Ömmukaffi á Blönduósi. Dagskrána í heild má finna á rettir.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir