Upprifjun á tveggja vikna hjálparstarfi Björgunarfélagsins Blöndu

Björgunarfélagið Blanda fékk m.a. aðstoðarbeiðni um að sækja fé sem var í sjálfheldu í Blöndudal. Mynd af FB síðu félagsins.
Björgunarfélagið Blanda fékk m.a. aðstoðarbeiðni um að sækja fé sem var í sjálfheldu í Blöndudal. Mynd af FB síðu félagsins.

Björgunarsveitir á Norðurlandi höfðu í mörg horn að líta meðan veðrið vonda geystist yfir landið á dögunum, eins og komið hefur fram í fréttum. Á Facbook-síðu Björgunarfélagsins Blöndu á Blönduósi hefur verið birt upplýsandi upprifjun á því sem á daga sjálfboðaliða þess hefur drifið síðastliðinn hálfan mánuð, og ætti að minna fólk á hve gott starf er innt af hendi af þessum hjálparsveitum okkar.

„Þetta byrjaði allt saman á einföldu verkefni sunnudags seinnipart 8. des. Þá sóttum við fasta ferðalanga sem komnir voru að Dúfunefsfelli á Kjalvegi. Google maps hafði sagt að Kjalvegur væri fljótlegasta leiðin suður á land :) ekki í fyrsta skipti og líklegast ekki í það síðasta.

Mánudagskvöldið 9. des fór í undirbúning fyrir óveðrið sem átti eftir að dynja á okkur. Allt var gert klárt í bækistöðvum okkar, tæki, tól og mannskapur.

Á þriðjudeginum uppúr kl 10 mættu síðan fyrstu félagar í hús og voru klárir fyrir komandi verkefni. Fyrsta útkall barst okkur uppúr hádegi og við tók síðan fljótlega eftir það stanslausar aðstoðarbeiðnir fram á miðvikudagskvöld. Við vorum með 5-6 hópa á fullu allan þann tíma og fengum einnig aðstoð frá félögum okkar í HSSR á snjótroðaranum Bola. Mannskapurinn fékk kærkomna hvíld aðfaranótt fimmtudagsins en þá höfðu nokkrir verið á fótum í 36 klst samfleytt. Fimmtudagurinn tók svo við með áframhaldandi verkefnum, þar á meðal mokstur af fjárhúsþökum, hrossasmölun, viðgerðir á tækum o.fl. o.fl. Á föstudeginum byrjuðu síðan leitir og mokstur á hrossum víðsvegar um sýsluna og urðu þau allnokkur verkefnin tengt því. Laugardagurinn og sunnudagurinn fóru einnig í að leita að hrossum á sleðum sveitarinnar. Farið var í Langadalsfjall, fram í Svartárdal og fram á Rugludal meðal annars. Rarik menn nutu einnig aðstoðar okkar á sunnudeginum en þá keyrðum við fyrir þá búnað út á Skaga. Á mánudeginum kom svo aðstoðarbeiðni um að sækja rollur í sjálfheldu upp á háls fyrir ofan Syðri Löngumýri í Blöndudal og fór jeppa- og sleðahópur í það.

Þriðjudagurinn 17. des komin 1 vika síðan fyrstu verkefni fóru að berast í hús og þá sendum við sleðahóp frá okkur að smala hrossahóp til byggða sem vitað var um á Vatnadal fyrir ofan Vatnahverfi. Vinnukvöld á miðvikudagskvöldi fór í yfirferð á tækjum og búnaði og viðgerðir á því sem hafði bilað í látunum. Einnig var byrjað að undirbúa flugeldavertíð sem er á næstu grösum. Fimmtudagurinn var síðan kærkominn frídagur :) en það entist bara til kl 01 á aðfaranótt föstudags en þá hafði farið útaf flutningabíll í Langadal og var farið að undirbúa með tryggingarfélagi að afferma hann um morguninn. Fór galvaskur hópur félaga af stað kl 12 á föstudeginum í að afferma vagninn en hann var fullur af kæli- og matvöru sem þurfti að komast norður sem fyrst. Gekk það verkefni mjög vel og búið var að tæma hann um kl 18.

Má segja að félagar okkar séu búnir að vinna þrekvirki síðastliðna daga og gífurlegt álag verið á starfsemi félagsins. Við þökkum allan þann stuðning og hlýhug sem við höfum fengið undanfarna daga :) Er það von okkar að félagar fái frí með fjölskyldum sínum yfir hátíðirnar.

Til gamans þá höfum við tekið saman hvað félagar eru búnir að láta af hendi margar klst. í aðstoð og starf félagsins, frá sunnudagskvöldi 8. des. til föstudagskvölds 20. des. Komnar eru 848 klst.“

Hægt er að sjá fleiri myndir HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir