Veður í hámarki á Norðurlandi vestra

Kort Vegagerðarinnar frá því kl. 13:21 í dag.
Kort Vegagerðarinnar frá því kl. 13:21 í dag.

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að snælduvitlaust veður hefur verið víða á landinu og nú geisa miklar rokur á Norðurlandi. Í Blönduhlíðinni er stormur, yfir 30 metrar á sekúndu með miklum hviðum en fyrir hádegi mældist mesta gusan 47,7 m/s á veðurstöð við Miðsitju. Sömu sögu er að segja frá Blönduósi þar er vindhraðinn yfir 30 m/s og hviður yfir 49 m/s. Á Skagatá mældust hviður allt að 41 m/s en þar er vindhraðinn nú um 30 m/s.

Eins og gefur að skilja eru helstu fjallvegir lokaðir vegna veðurs og Siglufjarðarvegur bæði vegna veðurs og snjóflóðahættu. Við Gauksmýri er vinhraðinn um 20 m/s og hviður hafa mest mælst rúmur 31 metri á sekúndu. 
Á Króknum er fólk rólegt þar sem sjaldan blæs í austanáttinni. Á sjálfvirkri stöð á Alexandersflugvelli er nú 13 m/s og engar hviður að ráði.

Í kvöld snýst vindur í sunnan 10-18 með slyddu og hita kringum frostmark á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra og hægari og þurrt í nótt. Norðaustan 10-18 og snjókoma á köflum seinni partinn á morgun og frystir aftur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir