Vilja að skýrsla um örsláturhús verði birt

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu hefur sent áskorun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands og Matís ohf. þar sem hvatt er til þess að niðurstöður örslátrunarverkefnis Matís, sem framkvæmt var í Birkihlíð í Skagafirði í fyrrahaust, verði birtar. Í Bændablaðinu kemur einnig fram að í fyrrgreindu bréfi væri áskorun um breytingar fyrir heimaslátrun til sölu verði rýmkaðar og einfaldaðar.

Ályktunin hjóðar svo:
„Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu skorar á landbúnaðarráðuneytið, Landssamtök sauðfjárbænda, Bændasamtök Íslands og Matís ohf. að beita sér fyrir því að niðurstöður úr verkefninu um örsláturhús sem Matís fór af stað með haustið 2018 verði kynntar. Jafnframt að möguleikar á örsláturhúsi eða leyfisveitingum fyrir heimaslátrun til sölu verði rýmkaðar og einfaldaðar, þó þannig að ávallt sé gætt að heilnæmiog öryggi matvælanna. Hvetur stjórn félagsins til þess að öllum ráðum verði beitt í þessu máli og þurfi lagabreytingar til, verði unnið að gerð þeirra.“

Þá má til gamans birta ályktun sem Íþróttafélagið Molduxar á Sauðárkróki lét frá sér eftir Allsherjarþing félagsins í haust:
"Allsherjarþing Molduxa krefst þess að forráðamenn Matís opinberi þær niðurstöður sem nú þegar liggja fyrir úr tilraunum þeim sem framkvæmdar voru í Birkihlíð í Skagafirði haustið 2018. Þar voru m.a. gerðar samanburðarrannsóknir á heimaslátruðum lömbum og þeim sem fóru í gegn um verksmiðjusláturhús Kaupfélags Skagfirðinga.
Ástæða þessarar framgöngu Molduxa á rætur að rekja til fornra deilna þingforseta félagsins og annálsritara sem eru á öndverðum meiði um kosti og galla heimaslátrunar og bar annar aðilinn því við að ekki lægju neinar vísindalegar rannsóknir fyrir um þess konar afurðir.
Frumkvæði, sköpunarkraftur, metnaður og heilindi eru opinber gildi Matíss og ættu því sem slík að ýta undir það að niðurstöðurnar verði birtar, fyrir fólkið í landinu og ekki síst Molduxa svo ró geti skapast um þennan málaflokk í félaginu.
Íslandi allt!"

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir