Aðför að smábátaútgerð á Sauðárkróki | Magnús Jónsson skrifar

Séð yfir hafnarsvæðið á Sauðárkróki. MYND: FEYKIR
Séð yfir hafnarsvæðið á Sauðárkróki. MYND: FEYKIR

Á félagsfundi í Drangey - smábátafélag Skagafjarðar var eftirfarandi samþykkt gerð einróma:

Félagsfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar haldinn 9. júní 2024 skorar á FISK Seafood á Sauðárkróki að falla frá kæru (kvörtun) sinni frá 11. mars 2024 sem fyrirtækið lagði fram í matvælaráðuneytinu gegn tillögum sveitarstjórnar Skagafjarðar um úthlutunarreglur fyrir byggðakvóta í Skagafirði 2023-2024. Þessi kæra, sem valdið hefur margra mánaða seinkun á úthlutun byggðakvóta, er aðför að útgerðum smábáta á Sauðár­króki og getur valdið því að sumar þeirra leggist af.

Það veldur undrun félagsmanna Drangeyjar að eitt stærsta útgerðarfélag landsins með um 21.000 þorskígildistonna aflaheimildir skuli ásælast 140 tonna byggðakvóta sem á liðnum árum hefur að mestu leyti farið til útgerða smábáta á Sauðárkróki.

Þessi samþykkt var samdægurs send framkvæmdastjóra og stjórnarformanni FISK-Seafood og nú liggur fyrir að engin viðbrögð eða svör hafa borist frá fyrirtækinu við henni.

Forsaga þessa máls er að á síðustu 15 árum eða svo hefur nokkur byggðakvóti (ca. 140 tonn) komið í hlut Sauðárkróks. Hefur honum verið úthlutað að mestu (ca.90%) til smábáta, þökk sé velvilja sveitarstjórnar Skagafjarðar í garð útgerða þeirra. Hefur hún öll þessi ár sent matvæla­ráðuneytinu tillögur um hvernig þessum kvóta skuli skipt. Engar athugasemdir hafa komið frá stórfyrirtæki staðarins FISK Seafood fyrr en 11. febrúar sl., er lögfræðingur félagsins Friðrik J. Arngrímsson krafðist þess að ráðuneytið samþykkti ekki þessar tillögur sveitarstjórnar. Málið hefur síðan velkst um í ráðuneytinu í næstum fimm mánuði en oftast hefur Fiskistofa verið búin að afgreiða umsóknir einstakra útgerða um byggðakvóta á grundvelli tillagna hinna ýmsu sveitarfélaga í febrúar-apríl.

Undirritaður var boðaður á fund byggðarráðs Skagafjarðar þ. 26. þ.m [júní]. Á fundinum kom fram að allar líkur væru á að sérreglum sveitarstjórnar yrði hafnað miðað við samtöl við embættismenn ráðuneytisins. Þannig má segja að ráðuneytið hefði orðið við kröfu FISK. Því óskaði ráðuneytið eftir nýjum tillögum frá sveitarstjórn um skiptingu byggðakvótans og eru þær nú að finna í fundargerð byggðaráðs frá þessum fundi, sjá: https://www.skagafjordur.is/is/fundargerdir/byggdarrad-skagafjardar/5465.

Ljóst er að verði þær samþykktar mun stór hluti byggðakvótans falla í hlut FISK Seafood en verði þær ekki samþykktar mun minna en 1% af byggðakvótanum koma til skipta hjá smábátaflotanum. Á hvorn veginn sem það fer er ljóst að hér verður um mikið áfall fyrir smábátaútgerð á Sauðárkróki að ræða, enda hefur byggðakvótinn skilað a.m.k. 30% af aflaverðmætum þessara 12-15 smábáta sem gerðir eru út frá staðnum. Rétt er að benda á að almenni byggðakvótinn er hluti af svokölluðum 5,3% potti sem er notaður í strandveiðar, frístundaveiðar sem og línuívilnun og hefur því að mestu verið veiddur af smábátum. Hefur SFS í háðungarsskini kallað þennan pott „félagslegan“ þátt fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nú sækir FISK Seafood á þessi mið en þessi 140 tonn eru um 0,7% af aflaheimildum fyrirtækisins. Er þetta gert í andstöðu við sveitarstjórn Skagafjarðar en með stuðningi og velvilja ráðuneytis undir stjórn Vinstri grænna. Það hljómar vel við stefnu þess flokks eða hitt þá heldur en þar segir: „Standa þarf vörð um hagsmuni minni sjávarbyggða, smábáta og minni útgerða… og festa þarf strandveiðar enn betur í sessi … “ !

Magnús Jónsson
formaður Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir