Af hlýju sumri 2021 :: Hjalti Þórðarson skrifar

Hásumarið 2021 fer í einhverjar metabækur hvað varðar hlýindi og hafa íbúar á vestanverðu Norðurlandi ekki farið varhluta af þeim hlýindum. Sumarið skall á með látum 24. júní sl. eftir verulega svalan maí og stærstan hluta júnímánaðar. Snjór var þó almennt lítill frá vetrinum.

Vindáttir í sumar voru að jafnaði vestan við hásuður og nokkuð stífar á köflum og hefur það þurrkað land og töðu bænda á skömmum tíma. Horfir jafnvel til vandræða með vatnsbúskap á mörgum svæðum sem liggja fjarri fjöllum. Þrátt fyrir þurrt landið er þetta sannarlega gæðasumar sem fer í flokk með afbragðsgóðum sumrum og mörgum þeirra hlýjum t.a.m. árin 1933, 1939, 1957, 1976, 1984, 2003, 2004 og 2012. Þessi sumur voru vissulega misjöfn, sum hlý, sólrík og þurr en önnur hlý og blaut og vindar af ýmsum styrkleika og mest úr suðri.

Það er margt sem vekur athygli og þá ekki síst hár hiti á hálendinu (eftir 24. júní) og ekki óvarlegt að áætla að hiti á heiðarsvæðunum, Kjalarsvæðinu og norðan Hofsjökuls hafi verið 2,5 til 4 gráður yfir meðallagi júlí og ágúst sl. tíu ára. Hár næturhiti var langtímum saman og fraus t.a.m. aldrei á veðurstöðvunum Sátu og Hveravöllum í júlí og ágústmánuði og reyndar langt frá því.

Í byggð var meðalhitinn í sömu mánuðum sennilega víðast 2-3 gráður yfir meðallagi sl. tíu ára. Hæsti meðalhiti sem vitað er um á veðurathugunarstöð á Norðurlandi vestra, bæði í júlí og ágúst, mældist á Miðsitju. Brúsastaðir liggur þar skammt á eftir með báða mánuðina yfir 13 gráðu meðalhita. Ekki kuldalegt það. Til samanburðar var meðalhitinn á Akureyri 14,3 gráður í júlí og 14,2 gráður í ágúst (hæstu mælingar á veðurstöð á Íslandi frá upphafi mælinga) og á Egilsstöðum 13,5 gráður í júlí og 12,6 gráður í ágúst. Ekki féllu hámarkshitamælingar á svæðinu í þessum mánuðum enda erfitt að keppa við verulega snarpar hitabylgjur fyrri ára eins og í júní 1934, í júlí 1934, í júlí 1991 og í ágúst 2004. Þó fór hitinn nú í sumar nokkrum sinnum yfir 25 stig og hæst í 26,0 og 25,9 gráður (Miðsitja og Brúsastaðir, varla marktækur munur) sem er svosem ágætur hiti og auðvelt að vera á stuttbuxum utandyra við slíkar aðstæður.

Hjalti Þórðarson

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir