Átaksverkefni til að styrkja byggð og atvinnulíf í Hofsós
Ákveðið var á fundi atvinnu,- menningar- og kynningarnefndar Skagafjarðar að sækja um þátttöku í verkefni Byggðastofnunar, "Brothættar byggðir" fyrir Hofsós. Einnig liggur fyrir að landshlutasamtökin SSNV verða aðilar að umsókninni. Þetta er mikilvægt viðbótar skref af hálfu sveitarfélagsins til að setja kraft í átaksverkefni til að styrkja byggð og atvinnulíf í Hofsós. Þá vinnur nefndin einnig að markaðs,- og kynningarátaki um þá kosti sem staðurinn hefur upp á að bjóða til atvinnuuppbyggingar.
Atvinnulíf og sóknarfæri
Hofsós er einn þeirra rótgrónu staða á landinu sem hefur orðið fyrir barðinu á samdrætti á umliðnum árum, ekki síst í sjávarútvegi sem var lengi blómleg atvinnugrein á staðnum. Fylgifiskur þessarar þróunar hefur verið fólksfækkun eins og víðar á NV. Þrátt fyrir þetta eru margvísleg sóknarfæri til að efla atvinnulíf og mannlíf á svæðinu. Ef litið er til ferðaþjónustu er Hofsós í marga staði vel í sveit settur, ekki síst á Tröllaskagasvæðinu sem æ fleiri ferðamenn heimsækja. Vesturfarasetrið og fallegur bærinn trekkja að, en sundlaugin sem þykir einstök, er orðin einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Norðurlandi. Tækifærin í frekari uppbyggingu ferðaþjónustu eru því ótvíræð. Tækifærin í sjávarútvegi eru enn til staðar, þrátt fyrir að núverandi sjávarútvegskerfi hafi leikið plássið illa eins og svo marga staði á landinu. Strandveiðar hafa hjálpað mörgum smærri stöðum, sem og byggðakvóti en umfang slíkra veiða þyrfti að vera meira og aflaheimildirnar rýmri. Vegna flókins og óréttláts regluverks byggðakvóta skerðist hann nú árlega í Hofsós. Ef 200-300 tonna byggðakvóti fengist fyrir Hofsós, til að mynda í tengslum við verkefnið "Brothættar byggðir" gæti það hleypt lífi aftur í bæinn sem sjávarþorp. Í Hofsós eru ýmis smærri sprotafyrirtæki og rekin margvísleg þjónustustarfsemi, ekki síst fyrir byggðina austan vatna. Möguleikar eru til þess að gera þessa starfsemi enn fjölbreyttari og styðja við góðar hugmyndir og frumkvöðla sem vilja byggja upp starfsemi sína í Hofsós.
Markaðs- og kynningarátak fyrir Hofsós
Verið er að af hálfu atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Skagafjarðar að hleypa af stokkunum markaðs- og kynningarátaki til að laða að fjölbreytta atvinnustarfsemi í Skagafjörð, þar sem unnið er sérstaklega með möguleika og sérstöðu hvers staðar fyrir sig, en einnig almennt fyrir héraðið. Er verkefnið eitt þeirra er urðu fyrir valinu sem hluti af sóknaráætlun NV sem landsshlutasamtökin, SSNV sjá um. Í verkefninu er unnið með styrkleika og sérstöðu þriggja þéttbýlisstaða, Hofsós, Varmahlíðar og Sauðárkróks. Hluti af þessari vinnu er að fara yfir tækifæri sem felast í stoðkerfi og þeim gæðum sem tengjast stöðunum, s.s. jarðhiti, vatn, rafmagn, samgöngur og mannauður. Vinnunni fylgir svo vinnsla kynningarefnis. Á meðal þess sem farið hefur verið yfir eru mögulegar lóðir undir atvinnustarfsemi á stöðunum, ásamt tækifærum sem felast í atvinnuhúsnæði sem fyrir er á þessum stöðum og verður kynning þeirra hluti af markaðssetningu á kostum þessara plássa til að staðsetja í þeim nýja atvinnustarfsemi.
Ívilnanir fyrir fyrirtæki sem vilja byggja upp í Hofsós
Á stöðum þar sem sveitarfélagið telur sérstaka þörf á uppbyggingu ætti að bjóða sérstök kjör fyrir ákjósanleg fyrirtæki sem íhuga að byggja þar upp starfsemi sína. Þannig verði greitt fyrir því að slík verkefni verði að veruleika. Á þetta við um atvinnulóðir, niðurfellingu eða afslætti á ýmsum gjöldum og sérstök kjör á heitu vatni, svo nokkur mikilvæg atriði sem ráðið geta úrslitum séu nefnd. Sveitarfélagið getur einnig veitt margvíslega aðra aðstoð til að greiða fyrir spennandi verkefnum þar sem uppbyggingar er mest þörf. Ekki er vafi á að ívilnanir af þessu tagi myndu koma að góðum notuð til að hleypa enn meirra lífi í atvinnuuppbyggingu í Hofsós.
Bjarni Jónsson
Skipar 1. sæti hjá VG og óháðum Skagafirði, xV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.