Ertu þátttakandi í samfélaginu þínu? - Áskorandi Hugrún Sif Hallgrímsdóttir Skagaströnd

Mér þykir afskaplega vænt um nærsamfélagið mitt. Ég velti því oft fyrir mér með hvaða hætti fólk getur látið gott af sér leiða og hvað það er sem gerir manneskju að góðum og virkum samfélagsþegn. 

Ég ætla að byrja á umhverfinu okkar. Ég hef oft látið fara í taugarnar á mér að sjá plast og rusl á girðingum. Hvað gerði ég nú í því? NÚ EKKI NOKKURN SKAPAÐAN HLUT, nema jú tuða um sóðaskapinn. Nágranni minn kunni hins vegar ráð við þessu, hann stóð uppúr sófanum og gekk sem leið lá frá Skagaströnd að Laxárbrú og týndi upp allt ruslið. Vá hvað hann var nú með mikið betri lausn á málinu en ég.

Ég átti það til að fara mínar reglulegu ferðir í Bónus en dag einn fór ég að spá aðeins betur. Hvað ef það gerðu allir eins og ég? Búðin okkar færi lóðbeint á hausinn, starfsfólkið  missti vinnuna, ég þyrfti að keyra einhverja tugi kílómetra til að ná í mjólkurpott og brauð. Ég ákvað að breyta hugarfarinu, í dag borga ég glöð örfáum þúsundköllum meira á mánuði en legg um leið mitt af mörkum við að styðja við þjónustuna! Ég gerist auðvitað sek um að droppa við í stórmörkuðunum og er það þá aðallega Costco sem tekst að lokka mig inn um dyrnar .. EN ég get sagt með góðri samvisku að ég versli svona 85% í minni heimabúð.

Jólagjafir! Það er rosalega þægilegt að fara bara á netið eða skreppa eina ferð í Kringluna og afgreiða málið. En ég fór að spá, hvort ætli það skipti meira máli fyrir hana Dísu á hár-greiðslustofunni að ég versli hjá henni eða ætti ég að versla hjá einhverjum verslunarrisa? ÉG JÁTA! Ég versla helling hjá hinum síðarnefnda en ég setti mér nú samt það markmið að versla alltaf hluta gjafanna í heimabyggð. Það skiptir litlu fyrirtækin svo miklu meira máli en þau risavöxnu að ég snúi mér til þeirra. Þau eru líka svo miklu persónulegri og auðvitað erum það við, heimafólkið, sem þurfum að standa okkur þegar það kemur að því að halda litlu fyrirtækjunum á floti.

Maðurinn minn slasaði sig fyrir fáeinum árum! Ég mun aldrei geta fullþakkað allan þann kærleik sem okkur var sýndur. Á tímabili vissum við ekkert hvenær hann gæti aflað aftur tekna til heimilisins og þá vorum við svo heppin að fá aðstoð. Sú hjálp sparaði mér ansi margar andvökunætur en nú er eiginmaðurinn, til allrar hamingju, farinn að vinna á nýjan leik og aðstæður hafa breyst til hins betra. Ég setti mér því markmiðið ,,pay it forward”. Ég ætla mér að gefa hverja einustu krónu áfram. Ég er því markvisst að leggja ýmsum málefnum lið og ætla að gera það áfram. Ég veit hvað okkur þótti ómetanlegt að fá þessa aðstoð svo nú er komið að okkur að horfa til annarra aðila sem þurfa á aðstoð að halda.

En yfir í allt aðra sálma. Mér finnst kona ein í bæjarfélaginu mínu alveg yndisleg. Hún skellir oftar en ekki í auka poka þegar hún steikir kleinur og færir einhverjum, stundum er það ein-hver sem er veikur, öðrum tilfellum einhver sem var að missa ættingja eða bara fólk sem hana langar að gleðja þann daginn. Hver elskar ekki óvæntan glaðning þegar eitthvað bjátar á?

Ég get ekki ritað svona grein öðruvísi en að minnast á fólkið í björgunarsveitunum! Vá hvað þetta frábæra fólk leggur margt á sig til að tryggja öryggi mitt, nú og svo má minnast á kirkju-kórana, þar stendur fólk vaktina allt árið um kring, æfir sig fyrir guðsþjónustur, börnin sem fermast, nágrannann í næsta húsi sem lætur lífið, sannarlega kærleiksríkt fólk þar á ferð.

Ég hef vaðið um víðan völl og gæti farið inn á svo margt fleira en það væri ekki efni í eina stutta grein. Það geta allir lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Ert þú týpan sem situr heima og tuðar um allt og alla eða ert þú að leggja þitt af mörkum!? Það geta allir gert eitthvað.  

Hugrún Sif skorar á kristmund Elías Baldvinsson að koma með pistil.

Áður birst í 19. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir