Fegurðin í körfuboltanum :: Leiðari Feykis

„Við erum kúrekar, og syngjum þetta lag, til Jóka meistara, með haglabyssuna.“
„Við erum kúrekar, og syngjum þetta lag, til Jóka meistara, með haglabyssuna.“

Það hafa verið sannkallaðir sæludagar í Skagafirði undanfarið eins og glöggt má sjá í Feyki vikunnar. Eftir langan og erfiðan vetur voraði vel hjá körfuboltaunnendum og uppskeran, eftirsóttasti bikar Körfuknattleikssambands Íslands, komin í hús.

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með gengi Tindastóls þetta tímabil, líkt og því á undan, þar sem draumar og vonir kvikna í upphafi vetrar, dvína um áramót en verða svo að veruleika í lokin. Fylgjast með hvernig stuðningur og áhugi eykst með hverju skrefi sem tekin eru að settu marki.

Þó svo að liðið sé talið skagfirskt vil ég meina að svo takmarkað sé það ekki því stuðningsmenn eru margir hverjir búsettir annars staðar og sem dæmi hafa margir Húnvetningar mætt á leiki og getað samsamað sig við kúreka norðursins, eins og leikmenn og stuðningssveit voru kallaðir eftir að kúrekahattar urðu aðalsmerki á áhorfendapöllunum.

Upphaf hattanna má rekja til þess að fyrir úrslitarimmu Tindastóls og Vals fyrir ári birtist mynd á Instagram þar sem spurt var: „Hver tekur titilinn? Dýrasta lið landsins eða nokkrir sveitaboys?“ Þá tók stuðningsmannasveitin ansi góða ákvörðun og keypti upp kúrekahattalager Partýbúðarinnar og mætti með þá á höfðinu í Origo-höllina, sömdu texta við hæfi og sungu: „Við erum kúrekar, og syngjum þetta lag, til Jóka meistara, með haglabyssuna.“

Og þar er líka komin fyrirmyndin, Jóhannes Björn Þorleifsson, sem fyrstur manna mætti á leik í Síkið með sérsaumaðan kúrekahatt frá Ameríkuhreppi. Síðar fékk mynd af honum vængi og flaug skýjum ofar þar sem stendur með hattinn og handleikur haglabyssu. (Ég hef heyrt að uppástungan um að mæta með haglabyssur á leiki hafi ekki fengið góðar viðtökur hjá Degi formanni.)

Það er gömul saga og ný að til þess að þjappa fólki saman þarf verðugan andstæðing, líkt og þann djöfsa sem lesa má í Biblíunni. Andstæðingurinn í okkar tilfelli er þó heldur blíðari en það er gaman að minnast þess að upphafsmaður að stofnun Knattspyrnufélagsins Vals árið 1911, var Skagfirðingurinn sr. Friðrik Friðriksson, æskulýðsfrömuður og KFUM leiðtogi.

Þó Friðrik væri fæddur í Svarfaðardal var hann Skagfirðingur í föðurættina, stoltur af uppruna sínum og tengslin sterk við ættingja, eins og Feykir greindi frá 2018 þegar 150 ár voru liðin frá fæðingu hans. Friðrik Pétursson, faðir hans, var ættaður úr Hjaltadal í Skagafirði og hafði lært skipasmíðar og stundað þær um stund, en lagði síðar fyrir sig húsagjörð og kirkjusmíðar. Á sjöunda ári fluttu foreldrar Friðriks í Skagafjörð og síðar í Austur-Húnavatnssýslu þar sem hann endaði hjá vandalausum eftir að fjölskyldan hafði verið leyst upp.

Ég gæti trúað því að sá gamli hafi komið sér fyrir á góðum stað og fylgst með gangi mála í rimmu Vals og Tindastóls og séð að einkunnarorð hans, sem Valsmenn halda hátt á lofti, átti svo sannarlega við: „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.“

Góðar stundir!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir