Frumtamningar - Kristinn Hugason

Myndatexti: Tamningar í Torfgarði árið 1965. Friðrik Stefánsson í Glæsibæ og Sigurjón Jónasson á Syðra-Skörðugili eru að frumtemja á vegum Stíganda. Ljósmynd úr safni SÍH/EEG.
Myndatexti: Tamningar í Torfgarði árið 1965. Friðrik Stefánsson í Glæsibæ og Sigurjón Jónasson á Syðra-Skörðugili eru að frumtemja á vegum Stíganda. Ljósmynd úr safni SÍH/EEG.

Varstu fyrst með víxlað skeið
-vandséð folatetur.
En eftir því sem lengra leið
líkaði mér þú betur.
(Eiríkur Einarsson)

Því sem svo hnyttilega er lýst í vísunni hér að ofan er jú inntak tamningar og þjálfunar hrossa, þ.e. að þeim fari fram jafnt og þétt og henti að tamningunni lokinni í þau verkefni sem þeim eru ætluð. Kynbætur hafa hliðstætt inntak, að rækta gripi sem taka vel tamningu og hafa til að bera stærð, fegurð og myndarskap auk eðlisgróinna kosta. Ekki er nokkur vafi á að ræktuninni hefur fleygt svo fram síðustu áratugina að líkja má við byltingu en mikilvægi tamningarinnar er þó alltaf samt. Ekki er þó ætlunin í þessum pistli að rita um kynbótastarfsemi eða tamningar sem slíkar, heldur datt mér í hug að bera lítilega saman frumtamningar fyrr og nú.

Í hinu gagnmerka riti Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp Horfnum góðhestum er í inngangi kaflans um Skagafjarðarsýslu, sem er í fyrra bindi ritsins, fjallað um skagfirska hestamenn. Þar er kaflinn um Bjarna Jóhannesson frá Reykjum í Hjaltadal (Hesta-Bjarna) eðlilega drýgstur en margir fleiri góðir koma þar við sögu og rétt eins og raunin er enn í dag, hvort sem um hesta eða menn er að ræða, vegast á styrkleikar og veikleikar. Sumir eru bestir í þessu en aðrir í hinu. Einn þessara manna hét Stefán Stefánsson og bjó hann lengi á Skíðastöðum í Lýtingsstaðahreppi og talið er að hann hafi komist yfir að temja flesta hesta af öllum tamningamönnum sem uppi voru í Skagafjarðarsýslu á síðari helmingi 19. aldar, að Bjarna Jóhannessyni einum undanskildum.

Um tamningar Stefáns segir Ásgeir eftirfarandi: „Á löngu tímabili tók Stefán oftast 12 – 15 tamningahesta á vori hverju og tókst oftast að skila þeim vel tömdum um og laust fyrir réttir. Slíkt má telja undraverða elju af búandi manni um hábjargræðistímann og vanrækja þó ekki bú sitt og bjargræðisvegi. En þetta ber ljósast vitni um hve maðurinn hefur verið þessu starfi samgróinn og haft mikla lífsnautn af því.“ Jafnframt greinir Ásgeir frá því að Stefán hafi haft í þjónustu sinni hesthneigða pilta 12 til 17 ára gamla og átti einnig ágætan og vel vaninn hund. Ennfremur segir Ásgeir: „Það var um það talað að þegar Stefán var kominn til ferðar með fola- og strákakássuna hvað hann hefði þá verið lífsglaður og ánægður. Þarna var þó ekki fyrir fjárvon eða háum launum að gangast. Hann tók fjórar krónur fyrir tamninguna á hverjum fola.

Það voru venjuleg tamningalaun í Skagafirði á þeim árum,“ Og ennfremur: „Þegar allt var komið á skrið áttu strákarnir stundum erfitt með að stjórna folunum á meðan þeir voru lítið sem ekkert tamdir. Lentu þeir þá oft utan vegar á misjöfnum og torsóttum vegi. Þá kallaði Stefán: „Sitjið þið strákar, sitjið þið fastir í hnökkunum og látið vaða á súðum. En haldið þið laust við, haldið þið laust við strákar, því megið þið aldrei gleyma.“ – Þetta voru aðal lífsreglurnar sem Stefán setti sínum ungu riddurum.“ Ögn aftar í kaflanum kemur Ásgeir svo eftirfarandi heildarályktun um tamningaaðferðir Stefáns: „Það sem einkum einkenndi tamningar Stefáns, var hans framúrskarandi natni við höfuðburðinn að fá hann sem bestan og fegurstan ásamt mýkt og léttleika í taumum. Sem frumskilyrði fyrir þessari þjálfun forðaðist hann að folarnir særðust eða fengju of mikinn klemming undan keðju eða við teymingu.“

Berum við nú saman það sem segir í þessum skrifum Ásgeirs við það sem gerist nú til dags sjáum við miklar breytingar. Tamningarnar fóru þá fram yfir sumarið, nú heyrir til algerra undantekninga að menn stundi frumtamningar yfir sumarið, fyrir áratugum síðan færðust þær yfir á veturinn og þá ekki hvað síst við tilkomu tamningastöðvanna sem margar hverjar voru reknar af hestamannafélögunum. Nú seinni áratugina eru frumtamningarnar orðnar að hefðbundnum haustverkum, varð sú breyting raunar vonum seinna. Því sú breyting að farið var að sinna hrossum að hausti og fyrrihluta vetrar hér á landi varð ótrúlega seint. Réðist það líklegast af þrennu; heysparnaðarstefnu í fyrsta lagi, í öðru lagi því að hestamenn snéru sér margir að öðrum verkum á haustin og í þriðja lagi sú trú að hross væru í slíkum dvala á haustin að við þau væri vart hægt að eiga.

Annað sem kemur fram í tilvitnuðum texta er áherslan sem Stefán á Skíðastöðum lagði á mýkt og léttleika í taumum og þess vegna forðaðist hann að folarnir særðust eða klemmdust undan keðjunni eða við teymingar. Á þessum tíma var stangabeislið nefnilega ríkjandi sem tamningabeisli. Fráleitt þykir það í dag, eins magnaður búnaður og góðar stangir eru uppi í mótuðum hesti, en á þessum tíma datt mönnum vart í hug að hætta sér á bak tamningafola öðruvísi en með stangir uppi í þeim, voru enda særindi og margháttuð beislisvandamál yfirþyrmandi.

Kristinn Hugason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir