Fyrir og eftir rafmagn :: Áskorandapenni Bragi Guðmundsson

Það var myrkur í Svínadal þegar ég var að alast upp á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar. Myrkur í þeim skilningi að veiturafmagn var ekki komið í dalinn og heimarafstöð aðeins á einum bæ, Grund. Þar lýsti ljós sem vakti aðdáun og barninu e.t.v. dálitla undrun.

Fyrir mér var þetta jafn sjálfsagt og að sækja koks í kjallarann til þess að setja í eldhólfið í eldavélinni. Hún var undraáhald. Nýbornum lömbum mátti ilja í bakaraofninum og á framhliðinni var krani sem gaf heitt vatn. Það var líka sjálfsagt að sækja steinolíu í brúsa og fylla á vegglampa sem voru víða um hús og það var sjálfsagt að fara með gasluktir í fjós og fjárhús.

Myrkrið hafði kosti. Það var auðvelt að fela sig í feluleik og stjörnur, tungl og norðurljós lýstu óspilltan himinn vetrarins. En í myrkrinu leyndust líka óvættir undir rúmum, í dimmum vistarverum og í útihúsum sem engin leið var að lýsa til fulls. Leiðir milli áfangastaða gátu verið stuttfótum drjúgar. Haustmyrkrið var verst.

Lausn á rafmagnsleysi sveitanna fólst sums staðar í díselrafstöðvum. Ein slík var sett upp í mjólkurhúsinu heima, forláta Lister ljósamótor. Undir hann voru steyptar undirstöður og raflínur lagðar um fjós og fjárhús, dregið var í tóm rafmagnsrör íbúðarhússins. Við krakkarnir fögnuðum ljósinu innilega en örugglega varð breytingin mest fyrir mömmu. Sjálfvirk þvottavél gerði gamla suðupottinn skyndilega tilgangslausan þar sem hann stóð við hlið miðstöðvarketilsins. Kæliskápur og hrærivél birtust í eldhúsinu og kokseldavélin vék fyrir annarri og nettari sem stungið var í samband.

Rafmagnið frá mótornum var samt engan veginn óþrotlegt og gæta varð þess að hafa aðeins eitt eða tvö orkufrek heimilistæki í notkun samtímis.

Ég man þegar fyrstu rafljósin voru kveikt og þvílíkt undur þau voru. Ég man ærandi hávaðann í mótornum og kýrnar þurftu örugglega á allri sinni stillingu að halda þar sem aðeins ein tréhurð skildi þær og hann að. Ég man líka hversu stoltur ég var þegar mér var treyst til þess að snúa ferlíkið í gang. Til þess var notuð sveif og sá góði orkugjafi átti það til að slá illilega ef ekki var full aðgát höfð. Ég efast um að unglingi yrði treyst til þessa verks í dag.

Myrkur æsku minnar hefur yfirgefið Svínadal og gerði það fyrir bráðum hálfri öld er rafmagn var leitt heim að hverjum bæ. Þá loguðu ljós hvarvetna og bjartsýni kynslóðarinnar sem ruddi veginn til nútímans var allsráðandi. Nú loga ljós á færri jörðum í sama dal. Byggðin dregst saman og fólkinu fækkar, ungum sem öldnum. Framtíðina veit enginn en Svínadalur minninga minna er og verður ætíð sá sami.

Ég bið góðan nemanda minn úr menntaskóla, Valgerði Freyju Ágústsdóttur frá Geitaskarði, að taka næst við kefli áskorandans.

Áður birst í 47. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir