Jarðgöng og aðrar samgöngur

Við hjá Framsókn viljum beita okkur fyrir samtali við stjórnvöld um að stórbæta samgöngur í Skagafirði með betri vegum og jarðgangagerð samkvæmt nýrri samgöngu- og innviðaáætlun sem samþykkt hefur verið af öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra.

Ef skoðaður er listinn yfir vegi í Skagafirði er Hegranesvegur efstur en hann er einnig einn af þremur vegum á Norðurlandi vestra sem er í sérstökum forgangshópi. Aðrir vegir á listanum í okkar sveitarfélagi eru í þessari röð, Sæmundarhlíðavegur, Ólafsfjarðarvegur (frá Ketilási að Molastöðum), Skagafjarðarvegur (frá Stekkholti að Jökulsá), Skagavegur austanverður og Ásavegur í Hjaltadal. Til viðbótar eru svo vegir sem enn hafa ekki komist á listann en þurfa svo sannarlega á viðhaldi og endurbótum að halda og því þurfa þeir einnig að komast í þessa röðun á vegabótum.

Við hjá Framsókn viljum að ríkið hraði eins og kostur er uppbyggingu og endurbótum á þessum vegum samkvæmt fyrirliggjandi áætlun en því miður er það staðreynd að hlutfall malarvega er hvergi hærra á landinu en á Norðurlandi vestra.

Við viljum einnig þrýsta á að gerð verði jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar en vegurinn um Almenninga er stórhættulegur og ekki boðlegur sem heilsárstenging úr Skagafirði til Siglufjarðar. Það er mikið hagsmunamál fyrir eflingu byggðar í Fljótum að fá þessi göng ásamt því að með bættum samgöngum eykst ferðamannstraumur í fjörðinn fagra sem er hagsmunamál fyrir alla Skagfirðinga.

Í nýju aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar er gert ráð fyrir göngum undir Hjaltadalsheiði en með sameiningu við Akrahrepp opnast líka sá möguleiki að skoða betur kosti þess að gera göng undir Öxnadalsheiði. Við þurfum að vinna áfram með þessa tvo möguleika og fá botn í það hvora leiðina er hagkvæmara og skynsamlegra að fara með hliðsjón af umferðaröryggi og fleiri þáttum. Tengimöguleikar Skagfirðinga við Akureyri eru ekki ásættanlegir í dag en mikilvægi þess að hægt sé að komast t.d. á milli sjúkrastofnana í öllum veðrum og mismunandi færð eru gríðarlegir. Einnig mun fylgja bættum samgöngum meiri ferðamannastraumur og það er einnig jákvætt.

Við hjá Framsókn höfum það jafnframt á okkar stefnuskrá að koma á hringtengingu í Skagafirði með brú yfir Austari-Jökulsá sem tengir saman Kjálka og Skagafjarðarveg, en það hefur bæði kosti fyrir ferðaþjónustuna og íbúa í framhluta Skagafjarðar.

Fái ég brautargengi til að vinna fyrir þig kjósandi góður þá verður þetta klárlega eitt af mörgum góðum málefnum sem við hjá Framsókn munum beita okkur fyrir.

Ég óska eftir stuðningi þínum kjósandi góður svo að við getum farið í viðræður við stjórnvöld um að flýta þessum framkvæmdum sem allra mest.
X-B fyrir sterkari fjörð.

Sigurður B Rafnsson
skipar fjórða sæti á lista Framsóknar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir