Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Þriðji hluti :: Móttökur líkt og þjóðhöfðingjar væru á ferð

Í birgðastöð SÞ við Zagreb flugvöll voru settir upp hjálmar og farið í brynvarin vesti Sameinuðu þjóðanna áður en prílað var upp á stærsta skriðdrekann á svæðinu. Aðsendar myndir.
Í birgðastöð SÞ við Zagreb flugvöll voru settir upp hjálmar og farið í brynvarin vesti Sameinuðu þjóðanna áður en prílað var upp á stærsta skriðdrekann á svæðinu. Aðsendar myndir.

ZAGREB KRÓATÍA

Fimmtudaginn 19. maí voru Molduxarnir komnir á fætur kl. 7 eins og aðra morgna í ferðinni. Að loknum morgunverði ókum við af stað til Zagreb í níu manna bifreið er við höfðum tekið á leigu. Um morguninn hafði mágur Petars, Ivo bóndi, komið með bílinn frá Króatíu. Leiðin lá um fallegar sveitir Slóveníu að landamærum Króatíu þar sem við sóttum um vegabréfsáritun og gekk það nokkurn veginn þrautalaust fyrir sig. Ekki fór þó á milli mála við umsókn um dvalarleyfi að við vorum komnir að járntjaldinu sem var nýlega fallið. Til höfuðborgarinnar komum við kl. 12.35. Á hlaði Panorama hótelsins beið okkar Dagutin Drofenik framkvæmdastjóri mótsnefndarinnar og færði Molduxum að gjöf bók um Króatíu.

Einnig var þarna mættur góður vinur okkar og nýráðinn liðsstjóri, Róbert Buntic (á okkar máli dr. Roberto Makkaroni) og var hann með okkur nánast allan tímann í Zagreb og reyndist okkur vel. Við uppgötvuðum það síðar að hann var í raun ráðinn lífvörður okkar en Róbert var mættur á hótelið okkar fyrir kl. 7 alla morgna og skilaði okkur heim að kveldi.

En við máttum engan tíma missa því eftir okkur beið glæsilegur farkostur. Þá þegar höfðu fæðst einkunnarorð ferðarinnar: „Við erum afar tímanaumir og megum engan tíma missa“. Þá var haldið í skoðunarferð um borgina sem okkur fannst snyrtileg í alla staði. Við heimsóttum m.a. grafreit hins þekkta körfuknattleiksmanns Drazen Petrovic, en hann var landsliðsmaður Króatíu og lék í NBA deildinni amerísku. Petrovic var dýrkaður og dáður sem einn allra fremsti íþróttamaður þjóðarinnar. Íþróttamiðstöð hins fræga félags Cibona Zagreb hefur verið nefnd eftir Petrovic. Töluvert gætir austurrískra og ungverskra áhrifa í borgarmenningunni. T.d. byggðu Ungverjar járnbrautarstöð Zagreb á nítjándu öld.

Eftir skoðunarferðina bauð Petar okkur upp á hressingu á veitingastað sem hann á í borginni. Eftir kaffisopann skoðuðum við íþróttahöll þá er Íslendingar kepptu í handbolta við landslið Króata haustið 1993. Um kvöldið bauð mótsnefndin Molduxum til glæsilegs kvöldverðar á veitingahúsi utan við borgina. Að því loknu héldu menn heim á hótel til hvíldar en þar voru þá fyrir Íslendingar þeir er störfuðu á þessum tíma fyrir Sameinuðu þjóðirnar í nágrenni Zagreb. Þetta voru hjónin Þór Magnússon og Hulda Guðmundsdóttir ásamt Jóhanni syni þeirra, Auðunn Ólafsson og Hafsteinn Halldórsson.Voru þessir Íslendingar í ábyrgðarstöðum hjá S.Þ. og hjálparstofnun kirkjunnar.

Íslenkt starfsfólk Sameinuðu þjóðanna og
Hjálparstofnunar kirkjunnar í Zagreb 1994.

Gaman var að hitta landann og hvöttu þau okkur óspart í leikjunum sem framundan voru. Síðar um kvöldið tylltum við okkur niður á útiveitingastað við Tkalciceva Ulica í miðborg Zagreb og horfðum á fólkið líða hjá. Eftir hæfilega öldrykkju var ákveðið að fara í leikhús. En vegna tungumálaörðugleika og öruggrar leiðsagnar Pálma Sighvats, lentum við á tveggja tíma rússneskum nútímaballetti á virðulegasta og dýrasta hóteli borgarinnar þá, Esponada. Menn sofnuðu glaðir og hressir fyrir miðnætti.

Leikið gegn landsliðsmönnum gömlu Júgóslavíu

Daginn eftir hófum við með kaffidrykkju á veitingastað er Drazen Perovic átti og staðsettur var í stórri skrifstofu- og verslunarbyggingu við hlið íþróttamiðstöðvar Cibona Zagreb, en þangað var förinni einmitt heitið. Þar tók á móti okkur framkvæmdastjóri Cibona og leiddi okkur um sali. Sagði hann okkur frá sögu félagsins og sýndi okkur óteljandi verðlaunagripi þess. Þótti mönnum mikið til koma, enda áttu Molduxar þá engan bikar. Í Cibona höllinni hittum við Alexander Petrovic, bróður Drazen. Rifjaði hann upp viðureign Cibona og Njarðvíkur og einnig leik Króata og Íslendinga í undankeppni Ólympíuleikanna síðustu.

Alexander Petrovic hefur síðan þjálfað fræg körfuknattleikslið í Evrópu og getið sér gott orð. Aðstaða öll í Cibona höllinni var til mikillar fyrirmyndar og mun fullkomnari en við áttum von á. T.d. er færanlegt parket á gólfi aðalsalarins og má breyta húsinu á skammri stundu í skautahöll. Flest stærri íþróttahús í Króatíu eru reyndar byggð þannig sbr. árangur Króata í íshokkí. Cibona höllin tekur um 8.000 manns í sæti.

Frá Cibona höllinni hélt Petar með okkur niður í borgina. Eftir um klukkustundar gang sagði hann: „Hér inn!“ og á móti okkur tók Antun Capeta forseti undirbúningsnefndarinnar og þáverandi forstjóri Pliva sem var lyfjaframleiðandi af stærri gerðinni. Áður en við gátum nokkrum vörnum við komið vorum við allir komnir með glas í hönd, en fyrsti leikur okkar átti að hefjast kl.15.00. Voru Molduxarnir frá Sauðárkróki leiddir inn í glæsilegan sal þar sem dúkað borð beið okkar með óteljandi glösum, hnífapörum og diskum. Nú hófust fyrir alvöru kynni okkar af króatískri gestrisni.

Til gamans er rétt að segja frá matseðlinum. Eftir fordrykki var fyrsti réttur borinn á borð sem samanstóð af skinku, eggjum og heimagerðum osti. Með réttinum var borinn salatdiskur sem út af fyrir sig var meira en heil máltíð fyrir okkur svona rétt fyrir leik. Þá var borinn fram réttur tvö: bragðsterk kjötsúpa með brauði. Því næst voru snæddar kalkúnabringur ásamt meðlæti. Aðalrétturinn var lambasteik með öllu tilheyrandi og gerðust menn nú mettir. Eftirréttur var stór skál með jarðaberjum og rjóma. Loks var boðið upp á kaffi og koníak!

Undir borðum hélt Antun ræðu og lýsti ánægju sinni með komu okkar Íslendinganna til Zagreb. Antun sagði að íslenska þjóðin yrði alltaf sérstök í augum Króata, vegna þess að Íslendingar urðu fyrstir þjóða innan Sameinuðu þjóðanna til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu. Um leið og við þökkuðum fyrir okkur, færðum við gestgjafa okkar að gjöf fána Sauðárkróksbæjar. Það vakti óskipta athygli okkar er Antun lýsti hiklaust landslaginu við Krókinn með því einu að horfa á fánann og lýsir þetta vel hvernig Snorra Friðrikssyni tókst til með hönnun merkis bæjarins. Ekki gafst mikill tími til ræðuhalda og við orðnir afar tímanaumir. Kl.14.30 stukkum við upp í bíla og ókum í loftköstum til íþróttahússins þar sem við áttum að leika opnunarleikinn kl. 15.

Molduxar kaldsveittir af ofáti og víndrykkju.
Ekki bætti  úr skák
að mótherjarnir voru ekki
árennilegir, D.S.R.M. Zagreb
sem státaði af nokkrum
leikmönnumer áður höfðu leikið í fyrstu deild.

Nú gerðust þau undur og stórmerki er Róbert lýsti eftir mönnum í byrjunarliðið, að enginn gaf sig fram! Allir kaldsveittir af ofáti og víndrykkju. Ekki bætti úr skák að mótherjarnir voru ekki árennilegir, D.S.R.M. Zagreb sem státaði af nokkrum leikmönnum er áður höfðu leikið í fyrstu deild. Um leikinn eða úrslit hans þarf ekki að fjölyrða. Þess má geta að í mótinu léku a.m.k. tíu fyrrverandi landsliðsmenn gömlu Júgóslavíu.

Þennan dag, 20. maí, varð Alfreð 32 ára. Af því tilefni fór afmælisbarnið ásamt Petar og keypti kökur með kaffinu. Þegar eigandi bakarísins uppgötvaði að viðskiptavinurinn var frá Íslandi, var reikningurinn snarlega dreginn til baka og Alli og Petar kvaddir með virktum. Okkur virtist Króatar almennt upplýstir um landið okkar og þess má geta að um kvöldið var sýnd í sjónvarpinu íslenska kvikmyndin Kristnihald undir jökli.

Um kvöldið fórum við ásamt undirbúningsnefndinni og Íslendingunum hjá Sameinuðu þjóðunum á krá og snæddum heimalagaðar reyktar pylsur á veitingastað sem hét þá KONOBA „FIESTA“. Þarna var réttur að okkur gítar, Margeir spilaði og við sungum öll lög sem við kunnum. Króatarnir vinir okkar sungu einnig, sýndu töfrabrögð og var stemmingin frábær. Við fórum snemma í háttinn og morguninn eftir fórum við á fætur á venjulegum tíma.

Tár á hvarmi

Á föstudeginum 21. maí léku Molduxar hörkuleik við lið SISAK frá samnefndri borg sem er í 40 km fjarlægð frá Zagreb. Uxarnir voru yfir á síðustu mínútum leiksins en því miður sprungum við á endasprettinum og töpuðum naumlega 57:61. Í hádeginu var okkur boðið til málsverðar í hátíðasal íþróttahallarinnar og voru veitingar og þjónusta við hæfi þjóðhöfðingja. Prófessor frá listaskóla í borginni færði okkur að gjöf keramikvasa gráan að lit, sérstaklega hannaðan og gerðan handa Molduxum og merktur okkur. Var okkur sýndur mikill heiður með þessu boði. Pálmi Sighvats komst ekki með okkur til veislunnar þar sem hann var að dæma leik í undanúrslitum mótsins.

Um nónbil lékum við annan leik við lið frá Zagreb sem kallað var MAM-VIN Zagreb og sigruðum við heimamenn 59:38. Í hálfleik höfðum við tveggja stiga forystu. Snerpa og áræðni Molduxanna hafði vaxið með hverjum leik, en sú þróun nýttist okkur ekki því ekki urðu leikirnir fleiri á mótinu. Vinir okkar í liðinu GAK frá Graz komu til okkar eftir síðasta leikinn og báðu um liðsstyrk þar sem þeir voru orðnir fáliðaðir. Því miður gátum við ekki orðið að liði því strax eftir leik fórum við í fylgd Íslendinganna til birgðastöðva SÞ við Zagreb flugvöll. Þar settum við á okkur níðþúnga bláa hjálma og brynvarin vesti Sameinuðu þjóðanna. Voru ljósmyndir teknar af Uxunum þegar þeir höfðu prílað upp á stærsta skriðdrekann á svæðinu.

Þarna sáum við skýr merki þess að Króatar höfðu átt í stríði. Á vellinum mátti sjá fjölmarga skemmda jeppa sem voru augsjáanlega afskrifaðir og staflað í hrúgu eins og hverju öðru rusli. Margir jeppanna voru það lítið skemmdir að sjá að okkur fannst þetta hræðilegt að henda svona dýrum bílum í stað þess að gera við þá. Okkur fannst þetta sóun og firring en svona er stríð.

Á leið Uxanna til hótelsins komum þeir að Íslandsgötu
og sýnir nafngjöfin hug Króata til Íslands.

Á leið okkar til hótelsins komum við að Íslandsgötu og sýnir nafngjöfin hug Króata til Íslands. Um kvöldið var glæsileg móttaka á vegum mótsnefndarinnar í Muzej MIMARA. Þar voru flutt ávörp og öll liðin boðin velkomin á þeirra tungumáli. Á mótinu kepptu lið frá Ítalíu, Slóveníu og Íslandi auk heimamanna. Erlendu liðunum voru færðar gjafir frá mótsnefndinni og þá eignuðust Molduxar sinn fyrsta bikar. Við báðum um orðið og ávörpuðum veislugesti og færðum þeim þakkir fyrir mótið. Færðum við forseta nefndarinnar og framkvæmdastjóra gjafir. Auk þess gáfum við Petar Jelic íslenska fánann í fullri stærð. Mátti þá sjá tár á hvarmi. Eftir þessa glæsilegu samkomu brugðum við okkur á diskotek og skemmtum okkur vel með íslensku vinum okkar. Þar með var enn einn viðburðaríkur dagur í ferðinni á enda runninn.

Sunnudaginn 22. maí horfðum við á úrslitaleikina í mótinu og sáum Pálma dæma leikinn um þriðja sætið. Þarna var Pálmi kominn félagsskap dómara í efstu deild. Pálmi stóð sig vel og dæmdi fumlaust og var okkur til sóma. Við lok mótsins var okkur færð að gjöf 5 lítra bjórtunna frá eiganda slíkrar verksmiðju, en þann mann höfðum við aldrei séð. Af okkar eðlilegu ráðdeild og sparsemi tæmdum við tunnuna ekki fyrr en við komum til Feneyja. Við undirbúning ferðarinnar höfðum við látið prenta sérstaka boli handa okkur og einnig húfur, rauðar og hvítar á lit. Heimamenn langaði augsjáanlega í minningargripi og föluðust ákaft eftir þessum gripum sem við létum góðfúslega af hendi.

Eftir að mótinu lauk bauð Petar og fjölskylda Molduxum til veislu á bændabýli skammt frá borginni en þar bjó myndarbúi mágur Petars, Ivo sá hinn sami og sótti okkur til Austurríkis. Ivo var aldrei kallaður annað en Jón bóndi. Engum blöðum er um það að fletta að heimsóknin á bóndabæinn var hápunktur ferðarinnar. Náttúrufegurð er einstök í sveitunum norðan við Zagreb en minnisstæðastar eru dæmalausar móttökur. Eftir góða stund og samdrykkju á verönd hússins voru bornir fram fjölmargir réttir þar á meðal heill svínshaus og gaman var að sjá Króatana plokka í hausinn og gæða sér á kinnafitunni. Loks var borin fram geysistór rjómaterta nákvæmlega í laginu eins og Ísland, skreytt með fánum Íslands og Króatíu.

Fimm lítra bjórtunna fengu Molduxar frá
eiganda bruggverksmiðju,
en þann mann
höfðu þeir aldrei séð áður.

Frú Jelic kvaddi sér hljóðs og mælti nokkur hlý orð í okkar garð. Eini staðurinn sem merktur var á tertuna góðu var Sauðárkrókur. Ljóst var að Petar og frú báru hlýjan hug til Íslands eftir dvölina á Króknum. Við veislulok færðum við gestgjöfum okkar myndabækur að gjöf, Reykjavík 200 ára og Hin hliðin á Íslandi. Einnig stækkaða ljósmynd eftir Óla Arnar Brynjarsson af Króknum í þoku. Með okkur til veislunnar kom auk Róberts Buntic, Igor nokkur fyrrverandi poppstjarna sem hafði flotta söngrödd, en hann var oft á tíðum með för.

---------

Íþróttafélagið Molduxar heimsótti stríðsþjáða Króatíu árið 1994 og birtir Feykir þessa skemmtilegu ferðasögu í nokkrum áföngum en fyrsti hluti birtist í 25. tbl. Feykis 2022, annar hlutinn í 26. tbl. og þessi hluti í 27. tbl. Skrifin önnuðust Ágúst Guðmundsson og Margeir Friðriksson en formálann ritaði Ágúst Ingi Ágústsson, sagnfræðingur.

Fyrri greinar:

Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Fyrsti hluti :: Ísland viðurkennir sjálfstæði Króatíu og Slóveníu
Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Annar hluti ::The Icelandic Old Star National team

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir