Kúskerpi í Blönduhlíð - Torskilin bæjarnöfn

Kúskerpi 28. ágúst 2007. Nýtt fjós næst á mynd og íbúðarhúsið ber þar yfir. Gamla íbúðarhúsíð lengst til hægri. Trjáplönturnar farnar að rísa úr grasi í brekkunum út og upp frá bænum. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi.
Kúskerpi 28. ágúst 2007. Nýtt fjós næst á mynd og íbúðarhúsið ber þar yfir. Gamla íbúðarhúsíð lengst til hægri. Trjáplönturnar farnar að rísa úr grasi í brekkunum út og upp frá bænum. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi.

Sú elzta heimild, sem jeg hef fundið um þetta bæjarnafn, er vitnisburðarbrjef um hundraðatal á jörðinni Kúskerpi, dagsett 24. Maí 1442 (Dipl. Ísl. IV. b., 625). Bæjarnafnið er í frumriti brjefsins, sem er til í Handritasafni Árna Magnússonar, nákvæmlega stafsett, eins þá, sem nú: Kúskerpi.

Þetta sýnir alveg ótvírætt, að bæjarnafnið hefir verið eins um aldamótin 1400 sem nú, 5 öldum síðar. Ýmsar getgátur hefi jeg heyrt um Kúskerpis nafnið, og þær byggjast allar á því, að nafnið sje afbakað frá frá því upprunalega, t.d. úr Kvosverpi. Nú vill svo vel til, að Kúskerpi í Húnavatnssýslu – Kúskerpisbæir eru aðeins tveir á landinu – er stafsett nákvæmlega eins, svo langt sem heimildir ná (sbr. Safn til sögu Íslands IV. b., bls. 568).

Þar sem Kúskerpisnafnið (aðrar tilgátur minnist jeg ekki á, t.d. Kvígsverpi og Kúskeyri, sem ekki nær nokkurri átt) finst í skjölum eftir 1400, er það ávalt óbreytt (sjá t.d. Dipl. Ísl. IX. b., bls. 301 og Dipl. Ísl. XI. b., bls. 860. Og auðvitað hafa allar jarðabækurnar: Kúskerpi). Undarlegt væri það nú, ef Kúskerpisnöfnin hefðu bæði afbakast í sama nafn, fyrir árið 1400, og sú afbökun hefði haldist óbreytt síða! Þá má og benda á, að hefði forliður nafnsins; Kvos- breyzt í Kús-, væri það skrítið, að Kvoslækur (bær) í Rangárvallasýslu, skyldi ekki breytast í Kúslæk, það hefði þó átt að verða, væri Kúskerpisnafnið bjagað úr Kvosverpi. En þetta hefir ekki orðið. Og jeg er heldur ekki í neinum efa um, að Kúskerpisnafnið er upprunalegt og óbreytt á báðum jörðunum, það sem það nær.

Um forlið bæjarheitisins er lítið að segja. Það er hliðstætt við bæjanöfnin Kúgil (í Eyjafjarðarsýslu) og Kúhól (Rangárvallasýslu). Síðari liðurinn -skerpi, hygg jeg verið hafa – upphaflega – skerpir (í nefnifalli), en sökum þess að þágufallið – Kúskerpi – var ávalt notað, útrýmdi það r í nefnifalli og það hlaut að þrengja sjer inn í nf. og nafnið varð svo hvorugkyns. Skerpir hlýtur auðvitað vera leitt af lýsingarorðinu skarpur, á sama hátt og fornyrðin Skerkir (af skark-ali) (jötunheiti) (sbr. Lexicon Poeticum, bls. 505), snerpir, (af snarpur), Gerpir (af garpur?), skerðir (af skarð) og ótal mörg önnur orð, er sýnir, hve algengt hefir verið, að mynda nafnorð af lýsingarorðum, sem höfðu a í stofni (i-hl.v.). Bæjarnafnið Kúskerpir er því málfræðislega hárrjett myndað. (Einna greinilegast kemur þetta fram í vísu Snorra Sturlusonar:

Alrauðum drífr auði
ógnrakkr firum Hlakkar,
veit ek hvar vals á reitum
- verpr hringdropa, snerpir.

Háttatal Snorra Sturlusonar 42. erindi. Snorri kallar Skúla „ógnrakkan Hlakkar snerpi“.

Í kenningum fornskálda finst samskonar orð myndun víða, t.d. hjá Hallfreði: Flugþverrir nam fyrri, frægr aldregi vægja o.sfrv. Carmina Scaldica bls. 30 Sbr. og hinna alkunnu mannkenningu: gullskerðir (og friðskerðir af skarð, í vísu eftir Hallfreð og hjá mörgum síðar).)

Loks má færa til bæjarheitið Skerpill í Húnavatnssýslu (sjá Ferðabók Olaviusar, bls 216. Eyðikot frá Breiðabólstað), sem er bersýnilega eins myndað, og alveg ástæðulaust að telja afbakað nafn ( myndað eins og verpill. Þorkell verpill er nefndur í Sturlungu, II. b., bls. 198 og víðar). Nú er það áherzluvert, að lýsingarorðið „skarpr“ er algengt í fornmáli og lang tíðast notað í merkingunni harður.

Í Lokasennu stendur:
„… skarpar álar
þóttu þér Skrýmis vesa“,

þ.e. harðar ólar. Og spakmælið í Hávamálum: „Opt ór skörpum belg skilin orð koma“, sýnir sömu merkingu, c: hörðum belg. Sama merking kemur fram í nafninu: Skarphéðinn, þ.e. harður feldur (Bjarndýrsfeldur?). Þessi forna merking í orðinu „skarpur“ hefir verið algeng a.m.k. fram á 14. öld.

Í rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju frá árinu 1327 telur telur kirkjan sjer þrjár vættir „fiska skarpa“ í Skálavík (Dipl. Ísl. II. b., bls. 620), þ.e. harður fiskur. Og í Skriptaboði Jóns biskubs Halldórssonar 1326, er leyft „at eta skarpa skreið (c: harðan fisk) æ nockurum auptnum“ (s.st., bls. 600. Leifar sjást sömu merkingar í: „skarpt frost“ og skarpt um jörð“).

Öllum, sem lesið hafa fornsögurnar, hlýtur að vera ljóst, hve mikla áherzlu landnámsmenn og aðrir fornbændur lögðu á nautgripaeign. Það er efalítið mál, að bæjarstæðin hafa verið valin þar, sem var gott túnstæði og vænlegt til töðuræktunar. Þetta hefir hver landnámsmaður haft í huga, því það var lífsskilyrði (gott yfirlit um túnrækt og nautpeningseign fornmanna er í Lýsingu Íslands, þriðja bindi, bls. 91, 98 - 100, ll2 - ll3 (sjá neðanmáls), 116 - l19 og víðar. Guðmundur ríki á Möðruvöllum „vildi láta slá í túni sínu“, Ljósv. saga, bls. 135). Það verður því ljóst af þessu, að landið umhverfis bæjarstæðið á Kúskerpi hefir þótt afar óálitlegt til túnyrkju eða töðuræktunar. Það var óvænlegt að byggja sjer bústað á hörðu og grýttu landi. Það hefir fyrsti búandi á Kúskerpi skilið bezt. Og fyrst í landi þessarar jarðar varð ekki fundinn betri staður fyrir bæjarhúsin, varð að sætta sig við graslítinn og grýttan kúavöll og jörðin var því nefnd Kúskerpir.

Þetta má lesa út úr nafninu sjálfu. En vel kunnugur maður hefir sagt mjer, að túnið á Kúskerpi í Blönduhlíð sje einmitt mjög hart og grýtt, en beithagi sje þar grösugur. Að líkindum er alveg sama máli að gegna um Kúskerpisnafnið í Engihlíðarhreppi. Túnið hart og óræktarlegt í fyrstu, eins og nafnið bendir á.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir