Maður varð að manni :: Áskorendapenni Páll Jens Reynisson - Vest- og Skagfirðingur

Ég fór með Siva bróður í Fjölbrautarskólaskóla Norðurlands vestra (FNV) haustið 1999. Maður hafði ekki miklar væntingar í tilverunni og ég nennti ekki að læra! En þegar ég útskrifaðist haustið 2002 höfðu draumar kviknað í Skagafirði sem eru enn að rætast. Eins og Jón Marz sagði: ,,Maður varð að manni“.

Ég kannast alveg við það að bölva helvítis simpansanum í umferðarhnútnum í Reykjavík klukkan 07.30 niður á hringbraut dag eftir dag eða í strætisvagni í stórborg einhverstaðar í Evrópu, Asíu eða Langtíburtistan.

En Skagafjörður fyrir aðkomumann um aldamótin:
Sveitaböllin voru að deyja út á þessum árum. Í stað þess að hafa vikuleg helgarböll fækkaði þeim á þessum fjórum árum sem ég bjó á Sauðárkróki í nánast engin og Bifröst var breytt í leikhús. Ég kynntist frábæru fólki í Skagafirði. Ekki bara í framhaldsskólanum heldur líka á Heilbrigðisstofnun Skagafjarðar og í Steinullinni, þar sem ég vann með frábærum gaurum og fljóðum. Mikið var gaman að kynnast fólkinu og ég gleymi því seint þegar hún Stína Sölva sagði mér frá því þegar rafmagnið kom á ljósastaurana og lugtarvörðurinn hætti að setja hákarlalýsi í lampana.

Við Geirlaugur Magnússon heitinn vorum miklir mátar, ég fór vikulega í tvö ár út á Hala að tefla við hann. Ég komst ekki lengra en í eitt jafntefli, hann vann annars hvert einasta skipti. Geirlaugur vann fyrir sér í tvö ár við að tefla í almenningsgörðum í Póllandi með námi (þetta er satt). Ég sakna heilsubótarinnar hjá Árna Stef. Björn Magnússon, Björn Friðrik og Oddný eiga sérstakan sess hjá mér. Steinunn og Ásbjörn og ekki má gleyma Helgu efnafræðikennarana og Helgu á skólaskrifstofunni. Jón skólameistari er mjög eftirminnilegur með afalegt viðmót. Svo var það Gísli Árna í John Travolta bringuhára skyrtunni. Og svo núverandi skólastjórnendur, þau Ingileif og Keli, sem vildu allt fyrir mann gera. Sirrý var þarna líka og Kristján Bjarni (KB).

Ég sótti mikið í félagslíf skólans og var viðloðandi félagsstarfinu þar í tvö ár. Ég sá að nemendafélag FNV var ennþá með metakvöld ekki fyrir svo löngu síðan. En við stofnuðum metakvöld, að vestfirskri fyrirmynd, nokkrir í gríni í eðlisfræðitíma með Kristjáni Bjarna (KB), Jóni Marz, Kára Arnari, Gunna Sig. og Gísla Sig. En það var heimsmeistarakeppnin í asnalegum og tilgangslausum íþróttum eins og köfunarkeppni í skúringarfötu, öl-drykkjukeppni, smokkablæstri, keðjureykingarkappi og karaoke fyrir þá sem gátu Alls ekki sungið.

Eitt sinn plötuðum við KB með okkur á Miðgarðsball, en hann hafði það á orði þegar hann mætti þangað, spenntur og runnu á hann tvær grímur, að hann gæti verið faðir okkar allra sem voru þarna. Við fórum í okkar fyrstu vísindaferð nokkur saman með KB í broddi fylkingar suður til Póllands sem var ógleymanlegt eins og Gunni Sig. var búinn segja frá. Við gerðum Jón að forseta! Ég lenti í kór með þessum drengjum sem var einkar skemmtilegt eftir að hafa verið rekinn úr skólakórnum á Ísafirði fyrir að fara í mútur. Hinn svokallaði lopapeysukór tók að sjálfsögðu Skál og syngja ásamt Krummavísum, við tókum þátt í söngkeppni framhaldsskólanna en þurftum að lúta í lægra haldið fyrir Sheep-River-Hooks tríóinu sem sigraði aðalkeppnina.

Í Skaffó voru keyptar lífsnauðsynjar og til að fá pening í nemendafélagið hjá Geirmundi Valtýssyni, en samt var komið við í Hlíðarkaup í leiðinni. Ég bjó heima hjá Snorra Birni og Ágústu í þrjú ár, þau og þeirra fólk er gott fólk og ég sakna þeirra í hjartanu, ég sakna reyndar allra sem ég taldi upp hérna að ofan.

Þar sem eðlisfræðibekkurinn minn var svo geggjaður fórum við allir, ásamt Helgu Elísu, í verkfræði. Ég kláraði nám í véla- og iðnaðarverkfræði 2007 í HÍ, heilbrigðisverkfræði 2010 í HR og svo doktorspróf frá NTNU í Þrándheimi Noregi í verk- og læknisfræði 2018. Ég hef unnið á verkfræðistofu og háskólasjúkrahúsum, kennt í háskólum og tekið þátt í þróun á sýndarveruleikakortum fyrir lungnaspeglum í mönnum (sem er hálfgert googlemaps í lungum). Á frábæra fjölskyldu, frábæra konu, haug af krökkum og er aftur í frábæru námi í hinum lífsins skóla.

Veganestið frá öllu þessu góða fólki hefur skilað mér langt í lífinu.
Dr. Palli Camel Vest- og Skagfirðingur.
Ég skora á Vilhjálm Árnason, skólabróður og alþingismann, að skrifa pistil í Feyki.

Áður birst í 34. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir