Með landið að láni - Áskorandi Ingvar Björnsson á Hólabaki

Sem bóndi á ég allt mitt undir sól og regni og þeim gæðum sem náttúran færir mér. Bændur framtíðarinnar verða í sömu stöðu og ég en þeir munu einnig eiga sitt undir því hvernig ég og mín kynslóð mun skila landinu áfram til þeirra.

Í milljónir ára hefur líf þróast á jörðinni. Tegundir hafa komið og farið og lífið aðlagast náttúrulegum sveiflum og breytingum. Frumtilgangur hverrar tegundar hefur verið að tryggja erfðaefni sínu framgang til næstu kynslóðar til að tryggja tilvist tegundarinnar.

Í þróunarsögu lífs á jörðinni hafa nokkrum sinnum orðið stórfelldar tegundaútrýmingar. Ástæður þessarar útrýmingar hafa verið grundvallar breytingar á náttúrulegum aðstæðum vegna stóratburða á borð við ofurgos og loftsteinaárekstra. Í fyrsta skipti í lífsögu jarðar (svo vitað sé) á sér stað útrýming vistkerfa og þar með tegunda vegna athafna einnar tegundar í lífkeðjunni.

Nú er svo komið að athafnir okkar og umgengni um jörðina útrýmir ekki einungis öðrum tegundum heldur er bein ógn við afkomu og framtíðarhorfur okkar eigin tegundar. Hegðun okkar er því farin að stangast á við hið náttúrulega lögmál að tryggja genum okkar framgang til framtíðar. Gengdarlaus sóun auðlinda og umgengni okkar um náttúruleg gæði er farin að ógna lífsafkomu komandi kynslóða manna.

Lesandi góður! Breytum heiminum saman. Tryggjum genum okkar framgang. Taktu málin í þínar hendur, plantaðu skógi, græddu upp örfoka land og endurheimtu glötuð vistkerfi. Láttu þig varða umhverfið. Dragðu úr neyslu og sóun. Horfðu innávið, finndu frið og sátt í einföldum hlutum. Þú þarft ekki að gera þetta vegna jarðarinnar - henni er sama. Jörðin mun í tímans rás hverfa inn í sólina og eyðast. Gerðu þetta fyrir þig, börnin þín og ófædda afkomendur barna-barna þinna.

Komum fram við landið og náttúruna af virðingu. Þó að okkur sé úthlutaður tímabundinn ráðstöfunarréttur þá megum við ekki gleyma því að við höfum landið einungis að láni hjá afkomendum okkar.

Ég skora á Magnús Ólafsson nágranna minn á Sveinsstöðum að rita næsta pistil.

Áður birst í 16. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir