Munur þess að ærast eða vera ærlegur
Sigurjón Þórðarson sveitarstjórnarmaður Frjálslynda flokksins fer mikinn í grein sem birtist á feykir.is í gær. Þar allt að því átelur hann framsóknarmenn fyrir að ærast ekki yfir hugmyndum sem heilbrigðisráðherra hefur barist fyrir um sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi í mun stærri stofnun. Vitnar sveitarstjórnarmaðurinn m.a. í fund sem hann og aðrir sveitarstjórnarfulltrúar áttu með heilbrigðisráðherra og segir réttilega að á fundinum hafi komið skýrt fram að aðförin að Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki væri í algjörri andstöðu við íbúa.
Lætur sveitarstjórnarmaðurinn þess þó ógetið að sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknarflokksins héldu á þessum sama fundi uppi skýrri, harðri og gagnrýninni, en þó ærlegri andstöðu, gegn hugmyndum ráðherra, án þess að ærast eitt andartak. Samkvæmt Íslenskri orðabók þýðir enda það að ærast m.a. að verða óður eða ruglaður sem að mati undirritaðs er ekki vænlegt til árangurs í nokkru einasta máli.
Rökfastur málflutningur framsóknarmanna gegn hugmyndum heilbrigðisráðherra á þessum fundi og öðrum, sem og góð samtöl sveitarstjórnarfulltrúa flokksins við þingmenn og ráðherra stjórnarmeirihlutans á Alþingi undanfarnar vikur og mánuði, hefur nú skilað því að sameining heilbrigðisstofnana á Norðurlandi mun ekki taka gildi fyrr en 1. september á næsta ári en tíminn fram að því verður nýttur til að ná samkomulagi á milli ríkisins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar um yfirtöku þess síðarnefnda á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki. Er fagnaðarefni að sú skynsamlega niðurstaða liggur loks fyrir.
Sigurjón Þórðarson getur dregið þann lærdóm af þessu máli að rökfastur og staðfastur en um leið hófsamur málflutningur gagnvart þeim sem hafa með ákvarðanir að gera skilar sem betur fer oftast nær mun betri niðurstöðu en það að gaspra á torgum úti. Það er betra að vera í jafnvægi en að ærast.
Stefán Vagn Stefánsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.