Tímamót - Áskorandinn Þórdís Eva Einarsdóttir, Grænuhlíð A-Hún.

Nú þegar tvítugsafmælið mitt nálgast óðum, ásamt fleiri tímamótum, þá hef ég mikið verið að hugsa til baka. Það er eflaust undarlegt fyrir mörgum að velta sér upp úr slíku um tvítugt þegar maður er rétt að komast á fullorðinsárin, en ég held það sé mikilvægt upp á hvað maður velur að taka með sér áfram út í lífið.

Ég er langyngst systkina minna og ólst því upp sem eina barnið á heimilinu. Ég fór heldur ekki í leikskóla, sem hafði sína kosti og galla. Það olli til dæmis mikilli tilvistarkreppu þegar ég var sex ára og var að byrja í skóla, þá áttaði ég mig á þeirri hræðilegu staðreynd að ég myndi aldrei aftur hafa heilan vetur þar sem ég gæti bara leikið mér. Þegar ég var að alast upp þurfti ég því að reiða mig á sjálfa mig og ímyndunaraflið. Ímyndunaraflið sýndi sig til dæmis í bókunum sem ég byrjaði að skrifa, þær voru nokkrar en ég kláraði nú reyndar enga af þeim.

Ætli það hafi samt ekki sýnt sig mest í vinafjölskyldunni sem ég átti. Ég hef heyrt því fleygt fram að kannski hafi þetta verið huldufólk en ég efast nú um það, þau eru allavega fyrir löngu hætt að heimsækja mig. Þetta var mjög stór fjölskylda sem ég varði miklum tíma með. Foreldrarnir hétu Holdigobbi og Karotta og áttu 16 börn. Ég man ekki nöfnin á börnunum nema einni unglingsstelpunni sem hét Tunga. Þau óku um á rútu sem var svo stór að þegar hún beygði heim afleggjarann fannst mér sem afturendinn sveiflaðist út fyrir veginn. Þau áttu hvorki meira né minna en tvö hesthús heima og skiptu þeim á milli sín. Til að komast í hesthúsið hennar Karottu þurfti ég að labba á milli stólpanna á rafmagnsstaur niðri á túni, þar voru dyrnar sem gengið var inn í hesthúsið. Hesthúsið hans Holdigobba var undir heyvagni og fór ég oftar þangað. Þetta var indælisfólk.

Þegar ég hugsa til baka er óhjákvæmilegt að hugsa um pabba minn, en hann dó árið 2017, þegar ég var 16 ára. Þær minningar sem mér hefur fundist vega mest eru frá því ég var lítil, smáatriði og hversdagslegar venjur. Eins og að fara saman að gefa kindunum, vera með honum í bæði traktor og bíl þar sem hann kenndi mér ýmsar barnavísur sem ég svo lærði utan að og fór oft með. Eitt vorið í traktornum kenndi hann mér lagið um lóuna og ég söng það hástöfum fyrir hann. Þegar ég var mjög lítil rúlluðum við bolta á milli okkar á eldhúsgólfinu og ég man hvað mér fannst gaman þegar ég hljóp í fangið á honum og hann lyfti mér hátt upp í loft. Það er því í raun ekki flókið hvað það er sem ég tek með mér inn í fullorðinsárin, ég tek pabba minn með mér.

Ég skora á Gunnlaugu Kjartansdóttur að verða næsti penni.

Áður birst í 4. tbl. Feykis 2021

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir