Vinnuhestar - Kristinn Hugason skrifar
Í fyrstu grein minni hér í Feyki þetta árið skrifaði ég um landpósta og pósthesta. Segja má að rökrétt framhald þess sé að fjalla um vinnuhesta en í sjálfu sér voru pósthestarnir vinnuhestar; þeir voru flestir notaðir sem áburðarhestar undir póstkoffortunum en póstarnir voru ríðandi. Nema þá í þeim tilfellum sem þeir fóru ókleif fjöll hestum eða aðrar slíkar vegleysur að þeir yrðu að fara fótgangandi eða þá að þeir færu sjóveg.
Í einhverjum tilfellum fóru póstar svo gangandi og teymdu hest klyfjaðan póstkoffortum. Líklegt má telja að póstarnir hafi haft ákveðna hesta sem reiðhesta en hina einvörðungu undir klyfjum í póstlestinni. Reiðhestana hafa póstarnir örugglega valið með tilliti til dugnaðar, ratvísi o.þ.h. auk sem þeir færu vel með knapann, það hefur svo verið persónubundið hvaða áhersla var lögð á að hestarnir færu vel undir eða væru flottir eins og kallað er í dag. Sjaldnast hafa nú gefist tækifæri til að halda hestum til og persónubundið hvort einstakir landpóstar hafi haft metnað eða áhuga á slíku, t.d. að láta nokkuð til sín taka þegar nálgast var bæ eða er lúðrablásturinn hafði glumið. Ekki meira um það, en í þessari grein verður fjallað um vinnuhesta og í þeirri næstu um ferðahesta.
Hestar notaðir við slátt í Brynjudal í Kjós. Ljósmynd: Páll Jónsson.
Í upphafi skipulegs kynbótastarfs upp úr aldamótunum 1900, fóru áburðarhestar í vaxandi mæli að verða að dráttarhestum og var þeim þá beitt fyrir vagna og sleða. Brátt hélt mikil véltækni svo innreið sína með margs konar hestavinnuvélum. Raddir voru því uppi um að rækta bæri íslenska hestinn aðgreint, annars vegar reiðhesta, smalahesta og ferðahesta og hins vegar áburðarhesta og akhesta, eins og dráttarhestar voru oft kallaðir. Þessi stefna varð þó ekki ofan á nema í mesta lagi tvö stutt skeið, annars vegar upp úr aldamótunum 1900 og hins vegar fáein ár upp úr árinu 1940. Um svipað leyti sannaðist hið fornkveðna þó enn, að skjótt skipist veður í lofti, því að á örfáum árum upp úr síðari heimsstyrjöldinni leystu heimilisdráttarvélin og landbúnaðarjeppinn vinnuhestana af hólmi.
Þessi tvö stuttu tímabil, þar sem einblínt var á að rækta íslenska hestinn aðgreint, voru annars vegar tímabil fyrsta búfjárræktarráðunautarins; Guðjóns Guðmundssonar (1902 til 1908) og hins vegar fyrri hluti ráðunautarferils Gunnars Bjarnasonar. Árið 1951 var svo áherslan á ræktun reiðhesta innsigluð á búnaðarþingi. Árið áður hafði fyrsta landsmót Landssambands hestamannafélaga og Búnaðarfélags Íslands farið fram á Þingvöllum, það markaði þáttaskil. Stefnumörkunin um ræktnm reiðhestsins og samstarf BÍ og LH var samþykkt með svofelldri bókun: „Búnaðarþing ályktar, að fyrst um sinn beri að móta hrossaræktina með sérstöku tilliti til ræktunar á sterku, geðgóðu og viljugu hestakyni, ásamt úrvals reiðhestakyni. Búnaðarþing væntir þess, að Landssamband hestamannafélaga hafi samráð við stjórn Búnaðarfélags Íslands og hrossaræktarráðunaut þess, um stefnu í hrossaræktinni, svo árangur beggja verði sem beztur.“ Samþykkt var með 18 samhljóða atkvæðum. Allt fram til þessa höfðu miklar rökræður staðið um ræktunarstefnuna en nú var tími dráttarvélanna og landbúnaðarjeppanna genginn í garð, svo um lítið var frekar að deila, nema þá hvort nokkur framtíð væri í hrossahaldi yfir höfuð(!). En það er önnur umræða.
Theodór Arnbjörnsson, fyrsti ráðunautur BÍ sem sinnti hrossaræktinni eingöngu, lagði áherslu á að rækta bæri íslenska hestinn sem eitt kyn með reiðhestinn í öndvegi en treysta á að nóg félli til af jafnlyndum og traustum vinnuhestum. Æskileg vinnuhestsgerð var þó vitaskuld æði frábrugðin því sem þykir best við hæfi hjá reiðhestum hvað snertir lundarfar, gangfegurð og sköpulag. Hálsinn skyldi þannig vera frekar stuttur og vöðvamikill, brjóstið djúpt og mikið sem og bolurinn og fætur fremur stuttir. Sumt annað átti þó samleið, s.s. mikil og sterk lend og vöðvafyllt læri. Sammerkt var krafan um sterka fótagerð en hvað fótstöðuna varðar þótti sú staða sem kennd er við að spyrna, þ.e. bein afturfótastaða æskilegri en sú sem er meira berandi, þ.e. að afturfætur séu innundir hestinn. Báðar þessar fótstöður eru vel þekktar á meðal reiðhrossa dagsins í dag og þykir sú beina einkenna hross sem búa yfir flýti en hin hrossin sem léttara eiga með burð, einkum á hægu. Þó lítið væri fengist við sérræktun vinnuhesta gerðist þó heilmargt á tímabilinu frá aldamótunum 1900 fram til samþykktar búnaðarþings 1951 vinnuhestinum til framdráttar og vegsauka og hann skilaði heljarmiklu dagsverki. Þannig efndi Búnaðarfélag Íslands til búsáhaldasýningar árið 1921 þar sem hestaverkfæri voru áberandi.
Árið 1927 kom Búnaðarfélag Íslands á fót sérstakri nefnd til að leggja mat á verkfæri sem bændum stæðu til boða og 1942 var sett upp tamningastöð fyrir dráttarhesta á Hvanneyri fyrir tilhlutan Búnaðarsambands Borgarfjarðar. Vélvæðing sveitanna með hestaverkfærum var þá í hámarki. Árið 1947 efndi Búnaðarfélag Íslands til landssýningar á kynbótahrossum á Landbúnaðarsýningunni í Reykjavík. Stóðhestunum var skipt í tvo flokka; vinnuhesta og reiðhesta. Efsta hestinum í flokki reiðhesta var veittur Sleipnisbikarinn og var það jafnframt í fyrsta sinn sem hann var veittur. Nú voru hins vegar að skipast veður í lofti og á fyrsta landsmótinu sem haldið var þremur árum síðar, árið 1950, eins og fyrr segir, var enginn vinnuhestaflokkur á sýningunni. Þó frásögnin hér miðist mest við notkun vinnuhesta í sveitum landsins komu þeir einnig mikið við sögu í þéttbýlinu sem dráttarhestar og í vegavinnu um land allt. Atvinnubílar til flutninga leystu hestana svo af hólmi á þessum vettvangi.
Mikil þekking safnaðist upp á tiltölulega stuttum tíma hér á landi um hestaverkfæri og vinnuhesta, jafnframt sem hvoru tveggja almenn kunnátta um meðferð þeirra jókst og stétt eins konar verktaka varð til sem plægðu og unnu fleiri störf með hestum auk kúskanna sem störfuðu í þéttbýlinu og í vegavinnu. Þetta gerðist með því að nokkrir ungir menn fóru erlendis á búnaðarskóla, á námskeið eða í vinnu og sáu hesta að verki með hestaverkfæri og lærðu að hagnýta sér nýjungarnar, bændaskólarnir voru mjög virkir í kennslu á þessum sviðum og fyrir tilhlutan leiðbeiningaþjónustunnar auk þess sem maður lærði af manni eins og gengur. Ekki er hér rúm til að gera þessari sögu rækileg skil en mikil þekking er til staðar, einkum í bókum Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri, sérstaklega í bókinni Frá hestum til hestafla sem út kom hjá Uppheimum árið 2013 en einnig í bókinni Íslenskir heyskaparhættir sem út kom hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2018. Þá er og mikinn fróðleik á finna í bók Þórðar Tómassonar í Skógum, Heyannir Um baráttu þjóðar fyrir lífi sínu sem út kom hjá Bókaútgáfunni Sæmundi árið 2018. Mest af því sem fram kemur í þessari grein er fengið úr þessum bókum, einkum þó þeirri fyrsttöldu.
Á Sögusetri íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal er sögu vinnuhestsins gerð allgóð skil en á neðri hæð sýningarhúsnæðisins er m.a. eftirlíking af gamalli skemmu og þar inni er sýnd kvikmynd sem sýnir m.a. vinnu með hestum á öllum tímum árs. Utan við sýningarhúsnæðið er svo stillt upp nokkrum gömlum hestaverkfærum. Ýtarlegri fróðleikur um sögu vinnuhestsins og hestavinnuverkfæra fellur þó undir almenna landbúnaðarsögu sem gerð eru fyllri skil hjá Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri.
Áður birst í 5. tbl. Feykis 2019.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.