Gengur í svefni og mokar snjó hjá nágrönnum

Benjamín Benjamínsson hefur um áratugaskeið glímt við ákveðið svefnvandamál, nefnilega svefngöngu. Í vetur hefur þessi kvilli náð nýjum hæðum, þar sem Benjamín hefur farið út um miðjar nætur og mokað snjó úr innkeyrslu nágranna síns, honum reyndar til mikillar gleði.

-Það fór að bera á þessu í nóvember, en þá varð konan vör við það að ég var farinn í mína daglegu svefngöngu. Yfirleitt hef ég nú bara farið fram í stofu og dundað mér við að þurrka af og kannski kíkt á sjónvarpið, svo konan hefur nú hætt að kippa sér upp við þetta. En þegar hún heyrði útidyrahurðinni skellt um miðja nótt, fór hún að stjá til að skoða hvað gengi á. Sá hún mig þá rölta með skóflu í hönd yfir til nágranna okkar og þar tók ég upp á því að moka innkeyrsluna þeirra, en þar hafði safnast saman allmikill snjór.

Benjamín segir að nágrannarnir hafi tekið þessu sérstaklega vel og þegar þau komi út á morgnana, eftir að snjóað hefur, er planið næstum snjólaust, svo vel mokar hann. – Síðan bara kem ég inn aftur og leggst til svefns og vakna í mína vinnu á réttum tíma eins og ekkert hafi í skorist, sagði Benjamín.

Kári Engilbertsson, nágranni Benamíns, sagði í samtali við Dreifarann að hann væri auðvitað afar sáttur við þennan svefnkvilla nágranna síns og það væri mun heppilegra að hann gerði þetta heldur en eitthvað annað sem gæti komið þeim verr. – Við Benni höfum alltaf verið góðir félagar og hann hefur reynst okkur afar hjálplegur allar götur síðan við fluttum hingað í götuna og ætli þetta sé ekki bara hluti af því hversu mikið gæðablóð hann Benni er og vill allt fyrir alla gera, sagði Kári.

Benjamín kvíðir örlítið fyrir vorinu, þar sem þá verður enginn snjór til að moka og óvíst hvað tekur við hjá honum þá. – Ég bara vona að ég fari nú ekki að grípa í slátturvélina um miðja nótt, þá er ég ekki eins viss um að nágrannarnir verði jafn ánægðir með mig og nú.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir