Pantaði pepperoni-pizzu með appi en fékk ekki

Jón Kristinn Hallsson (47), stúdentsefni í fjarnámi, hafði samband við Dreifarann eftir að hafa lent í vandræðum með pizzapöntun. -Ég sá þarna auglýsingu á netinu frá Dominos minnir mig og hringdi strax, enda var ég spenntur fyrir þessari nýjung sem þeir voru að kynna.

Jæja Jón Kristinn, og gekk það ekki eins og í sögu? -Nei, fjarri því maður. Ég veit ekki hvaða vesen þetta var eiginlega, sérstaklega þar sem þetta átti nú að vera fljótlegt og einfalt. Ég bað bara um Rögga Special með appi.

Og var það eitthvað vesen? -Já þeir könnuðust ekki við Rögga Special. Svo ég pantaði í staðinn 16" pepperoni og lagði áherslu á að ég vildi endilega prófa að fá app með henni. Svo reyndar bað ég um að pizzan yrði skorin í fjórar sneiðar því ég næ aldrei að klára 8 sneiðar.

App? -Já, það stóð í auglýsingunni að það nýjasta væri að panta sér pizzu með appi. Hreint og klárt vinur. Ég tók meira að segja skjámynd af auglýsingunni.

Og fékkstu app með pizzunni? -Nei og já, gellan sem tók við pöntuninni sagði bara - Nei, þú ert ekki að nota appið - og ég hélt það nú og sagði - ég vil appið og engar refjar - og þá sagði hún að þau væru ekki með neinar refjar. Við þráttuðum um þetta smá tíma en svo fékk ég sent appelsín með pizzunni. Ég er bara ekki að skilja þetta, ég bað ekki um neitt appelsín.

Jæja Jón minn, er eitthvað fleira sem er að plaga þig varðandi pizzupantanirnar? -Já blessaður vertu. Menn eru til dæmis að bjóða upp á steinbakaðar pizzur en það er nú bara fyrir steinaldarmennina, ég skil ekki hvað á að vera svona merkilegt við svona löngu úrelta eldamennsku. Svo er eitt maður, ég bið oft um að fá pepperoni hægra megin og hawaii vinstra megin en þegar ég fæ pizzuna heimsenda þá er allur gangur á því hvort pepperoniið er hægra eða vinstra megin. Þetta náttúrulega gengur ekki svona þjónusta.

Þetta eru erfiðir tímar Jón. -Já þetta var ekki svona maður, ekki fyrr en eftir að pizzustaðirnir komu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir