Peningaþvottur ehf tekur til starfa

Álfur Ásláksson stofnaði á dögunum nýtt fyrirtæki á Sauðárkróki, Peningaþvottur ehf. Hugmyndina fékk Álfur snemma á þessu ári þegar hann heyrði mikið rætt um peningaþvætti og að hinir og þessir væru að stunda þá iðju. „Af hverju ekki ég,“ sagði Álfur við Dreifarann þegar slegið var á þráðinn til að forvitnast meira um hið nýja fyrirtæki.

„Ég var á fullu að leita mér að fjárfestingartækifærum eftir að mér áskotnaðist arfur eftir mömmu gömlu. Sá síðan fréttir í sjónvarpinu um að menn væru að græða á tá og fingri við að þvo peninga og ég ákvað því að skella mér á markaðinn í þessari atvinnugrein og hef fjárfest í vélum og búnaði til þess að geta nú þvegið peninga almennilega fyrir fólk.“

En hvernig hafa viðskiptin verið hingað til? „Þetta hefur nú farið rólega af stað, ég hef mest svona verið að þvo peninga fyrir fjölskyldumeðlimi. Doddi bróðir kom með nokkra þúsundkalla sem hann hafði hellt olíu yfir í vinnunni og þeir voru skínandi og eins og nýir á eftir, þannig að maður hefur greinilega góðar græjur og góð tök á þessum þvotti. Svo hafa verið að koma fyrirspurninr frá Litháen og Póllandi, um svona „money laundry“ eins og þetta heitir víst á enskunni, en ég hef nú ekki ætlað í neina útrás. En þá sögðu þeir bara að þeir myndu senda mér peningana og hvort það skipti nokkru máli fyrir mig hvort þeir kæmu í kössum með tréklossum. En ég sagði að það skipti engu máli, þó ég viti ekkert hvað ég geri við þessa klossa, ætli ég sendi þá ekki aftur bara út með peningunum þegar ég er búinn að þvo þá?“ sagði Álfur Ásláksson að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir