Veisla tamningamanna varð þeim vonbrigði

Sigurður tamningamaður með folann Sigmund.
Sigurður tamningamaður með folann Sigmund.

„Ég get sagt þér það vinur að ég hef ekki mikið álit á svona álappaletingjum. Því þetta er ekkert annað en bévítans leti og ómennska skal ég þér segja,“ sagði Sigurður Jónsson tamningamaður þegar hann hafði samband við Dreifarann á dögunum. Sigurði var mikið niðri fyrir, enda hafði mikil veisla sem hann ætlaði að halda fyrir Félag tamningamanna austan Vatna, nánast farið út um þúfur.

Segðu mér betur frá þessu Sigurður, hvað kom fyrir? -Nú ég hérna var búinn að bjóða til mikillar veislu og svona, búinn að redda áfengi já og gosi þarna um morguninn og átti þá bara eftir að elda hérna matinn. Svo varð ég bara eitthvað svo álappans þreyttur eftir að hafa skoðað WorldFeng þarna upp úr hádeginu að ég lagði mig aðeins, fékk mér smá kríu skilurðu.“

Smá kría er nú ekki löng. -Nei, nefnilega ekki, en þetta varð álappans löng kría skal ég þér segja. Ég vaknaði nefnilega ekki fyrr en allt of seint og þá með andfælum vinur, því þá mundi ég að jú ég var búinn að ná í áfengið en hafði gleymt að taka kjötið úr frystinum. Það var allt gaddfreðið skal ég þér segja.

Það var bagalegt Sigurður, hvað gastu gert? -Gat gert? Nú ég var náttúrulega í algjöru sjokki en þú þekkir mig, ég var snöggur að ná áttum og hugsaði með mér: Það hlýtur einhver að geta þítt kjötið fyrir mig. Svo ég fletti upp í netinu og fann löggiltan þýðanda.

Hringdirðu í löggiltan þýðanda? -Já, en ekki hvað? Maðurinn gefur sig út fyrir að þýða og er löggiltur að auki. Þetta var bara borðleggjandi. Svo ég hringdi í hann og sagði honum alla sólarsöguna en álappans letinginn sagðist ekki þíða hrossakjöt. Ég sagði honum að ég væri bara með naut og þyrfti að láta þíða það í hvelli en hann bara hló að mér, sagði reyndar eitthvað bull,  búll,  eða ég veit ekki hvað hann var að bulla. Ég er helst á því að álappans maðurinn hafi verið drukkinn.

Hvernig endaði þetta svo? -Nú ég skellti bara á álappans letingjann því hann neitaði staðfastlega að koma og vinna vinnuna sína. Svo ég pantaði kjúklingabita og franskar. Þeir voru nú ansi skúffaðir félagar mínir í Félagi tamningamanna austan Vatna þegar þeir sáu hvað var í veislumatinn. og ég get sagt þér það vinur að ég er ekki búinn að segja mitt síðasta því ég var að enda við að senda klögubréf á Félag löggiltra þýðenda vegna þessarar svívirðilegu framkomu. Svona bjánar eiga ekki skilið að halda starfi!

Ég held að þú hafir nú eitthvað misskilið starf hans Siggi. -Jájá, þú ætlar náttúrulega að taka upp hanskann fyrir þennan álappans aumingja. Það er alltaf eins með ykkur þarna á Króknum...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir