0-2 sigur Hamranna í gærkvöldi
Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli tók á móti liði Hamranna í gærkvöldi á Sauðárkróksvelli. Hamrarnir byrjuðu leikinn með miklum meðvindi og sóttu hart að Tindastólsstúlkum og uppskáru tvö mörk í fyrri hálfleik.
Ágústa Kristinsdóttir skoraði fyrsta mark Hamranna á 26. mínútu og Laufey Elísa Hlynsdóttir bætti svo við öðru marki á 35. mínútu.
Tindastólsstúlkur mættu ákveðnar í seinni hálfleikinn þó vindinn hefði lægt töluvert þá sóttu þær mikið að marki Hamranna, en náðu þó aldrei að skapa nein hættuleg færi. Lokatölur urðu því 0-2 Hamrastúlkum í vil.
Tindastóll er í 6. sæti riðilsins eftir leikinn í gær, með 15 stig eftir 12 leiki. Hamrastúlkur eru í 7. sæti með 9 stig eftir 11 leiki.
Næsti leikur hjá Stólunum er föstudaginn 8. ágúst, en þá taka stelpurnar á móti liði Fjölnis á Sauðárkróksvelli og hefst leikurinn kl. 19:00. Allir á völlinn og hvetjum stelpurnar okkar!