Heildarfjöldi gesta Héraðsskjalasafns Skagfirðinga á árinu 2010 var 1656 og eru þá ótaldir þeir sem vinna að ritun Byggðasögu Skagafjarðar. Þetta kemur fram í árskýrslu safnsins sem nýverið kom út.
Karlar voru í miklum meirihluta gesta eða 1433 á móti 223 konum. Ekki er gott að skýra þennan gríðarlega mismun milli kynja, en svo virðist sem það falli frekar í hlut karlmanna að leita upplýsinga um önnur málefni, en þau sem snúa að börnum, s.s. eignarhald o.þ.h., eins og segir í skýrslunni.
Meira jafnvægi kynja er þegar kemur að öðrum fyrirspurnum, sem mótteknar voru með tölvupósti eða síma. Alls voru 272 karlar og 165 konur sem lögðu fram fyrirspurnir. Samtals voru fyrirspurnir til safnsins því 437 talsins. Margar af þessum fyrirspurnum eru þó lagðar fram fyrir hönd einhvers opinbers aðila og segir það þá litla sögu hvers kyns sá er sem fyrirspurnina leggur fram.
Þróun gestafjölda síðastliðin ár hefur verið á þann veg að gestum hefur fjölgað verulega en fjöldi fyrirspurna hefur staðið nokkuð í stað síðustu ár. Ekki hefur verið gerð sérstök athugun á því hvaða gögn fólk er sérstaklega að sækja í. Hins vegar má fullyrða að fjölgun hefur orðið varðandi ýmis mál sem snerta eignarhald jarða, eflaust vegna kröfu Óbyggðarnefndar í landeignir, sem áður voru taldar innan vébanda einstakra jarða eða upprekstrarfélaga.
Þá færist sífellt í vöxt að fólk vill fræðast um sögu húsa, einkum á Sauðárkróki. Einnig hefur fyrirspurnum og beiðnum vegna ljósmynda fjölgað verulega. Enginn vafi er á því að Héraðsskjalasafnið hefur þann sess meðal íbúa að þangað sé hægt að leita til að afla sér upplýsinga um sögu héraðsins.
Það er hins vegar ljóst að stór hluti yngri íbúa Skagafjarðar þekkir ekki hlutverk safnsins og mætti gera meira í að kynna starfsemi þess fyrir yngra fólki. Þá gerir fólk almennt séð lítinn greinarmun á starfi Héraðsskjalasafnsins, Sögufélagsins og Byggðasögu Skagafjarðar, en það skiptir almennt séð litlu máli. Allir þessir aðilar eru staðsettir í sama húsnæði og hafa styrk af hinum.