100.000 króna framlag til Grænlands
Vegna söfnunar sem fram hefur farið vegna náttúruhamfara á Grænlandi ákvað Sveitarfélagið Skagafjarðar að leggja söfnuninni lið með 100.000 króna framlagi. Á fundi byggðaráðs var lagður fram svohljóðandi tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
„Mánudaginn 19. júní gengu Hjálparstarf kirkjunnar, Hrókurinn og Kalak til samstarfs um landssöfnunina Vinátta í verki, í þágu þeirra sem verst urðu úti í hamförunum á Grænlandi. Lagt var upp með að alls enginn kostnaður yrði við söfnunina og að öll framlög skili sér óskert til Grænlands. Aðfararnótt sunnudagsins 18. júní skall ægileg flóðalda á grænlenska þorpinu Nuugattsiaq, sem er á samnefndri eyju í Uummanaq-firði, 600 kílómetrum fyrir norðan heimskautsbaug. Íbúar voru innan við 100 og lifðu á veiðum. Fjórir fórust og ellefu hús gjöreyðilögðust, m.a. rafveitan, verslunin og grunnskólinn. Hættuástandi var lýst yfir í Uummannaq-firði og tvö þorp til viðbótar rýmd. Þjóðarsorg lagðist yfir Grænland.“
Sjá frétt um flóðið HÉR