13 hagkvæmar leiguíbúðir í Skagafirði

13 íbúðir verða byggðar í Sveitarfélaginu Skagafirði. Mynd:FE
13 íbúðir verða byggðar í Sveitarfélaginu Skagafirði. Mynd:FE

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur úthlutað ríflega 3,6 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á 600 hagkvæmum leiguíbúðum víðsvegar um landið, svokallaðra almennra íbúða. Leiguíbúðirnar verða í 15 sveitarfélögum en þar af verða 13 á Norðurlandi vestra. Fjármunirnir eru hugsaðir til að styðja við framboð ódýrra leiguíbúða fyrir almenning og verða nýttir til byggingar á 438 íbúðum og kaupa á 162 íbúðum.   

Á vef Húsnæðis- og mannvirkjanastofnunar segir að stofnframlögin renni til byggingaraðila í almenna íbúðakerfinu og er ætlunin að slá á þann mikla húsnæðisvanda sem lægri og millitekjuhópar hafa mátt stríða við undanfarin ár. Þannig þurfi fólk sem leigir íbúð í kerfinu ekki að verja jafn stórum hluta af ráðstöfunartekjum heimilisins til húsnæðis og það myndi í mörgum tilfellum gera á frjálsa leigumarkaðnum og búi við meira öryggi því ekki er hægt að segja upp leigunni nema að ýmsum skilyrðum uppfylltum. Alls bárust HMS 35 umsóknir um samtals 5,6 milljarða króna og af þeim voru 31 umsóknir samþykktar, ýmist að fullu eða að hluta til. Sveitarfélög nutu forgangs við úthlutunina og hlutu alls um 1,2 milljarða króna.

Alls fengu 15 sveitarfélög, víðsvegar um landið, úthlutað stofnframlögum. Þau eru Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Garðabær, Grindavíkurbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Hveragerðisbær, Kópavogsbær, Norðurþing, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Seyðisfjarðarkaupstaður, Snæfellsbær, Strandabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Vesturbyggð.

Stofnframlag íbúðarbygginga í Sveitarfélaginu Skagafirði nemur rúmum 66 milljónum króna og byggðaframlag tæpum 23 milljónum. Heildarframlag nemur því rúmum 89 milljónir króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir