2-0 sigur í Boganum í gærkveldi
Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli mætti liði Hamranna í Boganum á Akureyri í gærkveldi, fimmtudaginn 3. júlí. Markalaust var í fyrri hálfleik en tvö gul spjöld fengu að líta dagsins ljós. Ashley Marie Jaskula leikmaður Tindastóls fékk áminningu á 25. mínútu og María Kristín Davíðsdóttir leikmaður Hamranna rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.
Stólastúlkur komu ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og á 50. mínútu skoraði Guðrún Jenný Ágústsdóttir fyrsta mark leiksins fyrir Stólana. Aðeins tveimur mínútu síðar bætti hún við öðru marki og staðan því orðin 2-0 fyrir Tindastól. Hamrarnir komust ekki á skrið í seinni hálfleik og unnu Stólastúlkur því glæstan sigur á Akureyri.
Stólastúlkur eru nú í 3. sæti riðilsins með 15 stig eftir 9 leiki. Lið Hamranna situr í 7. sæti með 6 stig eftir 7 leiki.
Næsti leikur hjá Stólunum er laugardaginn 12. júlí, en þá mæta stelpurnar liði Víkings Ó. á Ólafsvíkurvelli.