24 sóttu Sjávarútvegsskóla unga fólksins á Sauðárkróki

Fiskur er ekki bara fiskur. Skagfirsk ungmenni fá kennslu á Sauðárkróki. Mynd af Facebooksíðu Sjávarútvegsskóla unga fólksins.
Fiskur er ekki bara fiskur. Skagfirsk ungmenni fá kennslu á Sauðárkróki. Mynd af Facebooksíðu Sjávarútvegsskóla unga fólksins.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins var í boði í fyrsta skipti á Sauðárkróki í sumar en verkefnið er unnið í samstarfi vinnuskóla byggðarlaga, sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirtækja tengdum sjávarútvegi á Sauðárkróki, Austfjörðum, Norðurlandi Eystra, Reykjavík, Vesturbyggð og Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Á Sauðárkróki var skólinn starfræktur í eina viku frá 22. júní til 25. júní.

Á Sauðárkróki sóttu 24 nemendur skólann á aldrinum 13-14 ára og segir á Facebook-síðu Skagafjarðahafna að kennslufyrirkomulagið hafi verið þannig að nemendur fengu bóklega fræðslu í formi fyrirlestra og leikja, fengu að meta gæði fisks með skynmati, heimsóttu sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki tengd sjávarútvegi. Heimsóttu björgunarsveit og fengu fræðslu um starfsemi bæði sjávarútvegsfyrirtækja og björgunarsveita. Síðasta kennsludag var svo nemendum boðið upp á pizzaveislu og nemendur útskrifaðir.

„Þetta er í fyrsta skipti sem skólinn er haldinn í firðinum og var frábært að sjá hvað mörg fyrirtæki og einstaklingar voru tilbúnir að aðstoða okkur í vikunni. Björgunarsveitin Skagfirðingasveit tók glæsilega á móti nemendum á þriðjudaginn og hófst skólinn því með sannkallaðri veislu. Gísli Svan Einarsson kom sem gestafyrirlesari á miðvikudaginn og kynnti FISK Seafood fyrir okkur. Á fimmtudaginn tók rækjuvinnslan Dögun frábærlega á móti okkur og sýndi okkur starfsemi sína. Sjávarútvegsskólinn heimsótti einnig Ísfell á fimmtudaginn þar sem móttökurnar voru frábærar og lærðu nemendur auk þess nokkra nytsamlega hnúta í heimsókninni. Í dag föstudag fengum við svo frábæra aðstöðu hjá Fiskmarkaði Íslands fyrir skynmat ásamt því að fá lánaða fiska hjá FISK til að sýna nemendum. Það er með sanni hægt að segja að nemendur hafi lært margt skemmtilegt og nytsamlegt um sjávarútveg og séu reynslunni ríkari eftir vikuna,“ segir um námskeiðið sem haldið var á Sauðárkróki á Facebooksíðu skólans.

Á Mbl.is kemur fram að samtals hafi 394 einstaklingar á aldrinum þrettán til sextán ára sótt Sjávarútvegsskóla unga fólksins í sumar.

Hér fyrir neðan má sjá stutta samantekt á starfsemi skólans. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir