67 nemendur brautskráðust frá FNV í dag

Hér gefur að líta þann hóp brautskráningarnema FNV sem viðstaddir voru athöfnina í dag. MYNDIR: HINIR SÖMU
Hér gefur að líta þann hóp brautskráningarnema FNV sem viðstaddir voru athöfnina í dag. MYNDIR: HINIR SÖMU

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 41. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag að viðstöddum nánustu aðstandendum brautskráningarnema. Alls brautskráðust 67 nemendur og þá hefur Feykir sagt frá því fyrr í dag að Þorri Þórarinsson náði þeim einstaka áfanga að fá 10 í meðaleinkunn, að öllum líkindum fyrstur nemenda í 41 árs sögu skólans.

Athöfnin hafði talsvert annan blæ en áður enda enn talsverðar takmarkanir á fjöldasamkomum vegna COVID-19 og fólki gert að hafa fjarlægðarmörk í hávegum eins og framast er unnt. Því voru gestir með færra móti sökum þess að ekki máttu fleiri en tveir fylgja brautskráningarnema í útskriftina. Þá voru fáir starfsmenn viðstaddir og eldri nemar fjarri góðu gamni. 

Á heimasíðu FNV segir: „Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 2744 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Skólameistari greindi m.a. frá fjölbreyttu námsframboði skólans í þágu atvinnulífs á svæðinu og þakkaði fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum fyrir afar ánægjulegt samstarf í þeim efnum. Veðurfar á síðasta skólaári setti mark sitt á skólahaldið og varð til þess að kennsla féll oft niður. Þegar því loks slotaði tók COVID-19 við og raskaði skólahaldi svo um munaði. Þrátt fyrir þetta mótlæti skiluðu nemendur sínu og stóðu sig vel. Að lokum minntist skólameistari þeirra Nínu Þóru Rafnsdóttur kennara við skólan og Jóns Alexanders H. Artúrssonar, nemanda við skólann, sem létust á árinu.

Að loknum vetrarannál, sem Kristján Bjarni Halldórsson flutti, fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara. Alls brautskráðust 67 nemendur af eftirtöldum námsbrautum sem hér segir, en alls voru gefin út 74 prófskírteini:

Stúdentsprófsbrautir: 48
Hestaliðabraut: 1
Húsasmíðabraut: 9
Kvikmyndabraut: 2
Sjúkraliðabraut: 9
Starfsbraut: 1
Vélvirkjun og vélstjórn: 4

Það var Rebekka Ósk Rögnvaldsdóttir, fráfarandi formaður Nemendafélags FNV, sem flutti ávarp brautskráðra nemenda og að lokum flutti skólameistari brautskráðum nemendum heilræði fyrir lífið, óskaði þeim velfarnaðar og sagði skólanum slitið. 

Upptalningu á þeim nemendum sem hlutu viðurkenningar í dag má sjá í frétt á heimasíðu skólans en myndirnar sem hér fylgja tóku Hinir sömu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir